Dræm aðsókn á tjaldsvæði á sunnanverðum Vestfjörðum

Umsjónarmenn tjaldsvæðanna á Patreksfirði, Bíldudal og í Flókalundi segja allir svipaða sögu er varðar aðsókn á tjaldsvæðin þeirra. Dregið hefur úr aðsókn og afar lítið sést af innlendum ferðamönnum. Umsjónarmennirnir eru sammála um að veðrið spili stóra rullu í þessari fækkun því skiljanlega elta ferðamenn góða veðrið, sérstaklega þeir innlendu.

Það var því frekar þungt hljóðið í þeim Birgi Fannari Gunnarssyni á Bíldudal, Kristjáni Guðmundi Sigurðssyni á Patreksfirði og Sonju Haraldsdóttir í Flókalundi sem sögðu blaðamanni BB að sumarið hafi verið ansi blautt. Kristján Guðmundur sagði að það væri talsvert færra um ferðamenn en fyrri ár og að ljóst væri að þegar um fækkun á ferðamönnum væri að ræða þá bitnaði það fyrst og helst á svæðum sem langt er að heimsækja, eins og Vestfirði. Einnig nefndi hann að veðrið spilaði stóra rullu og að innlendir ferðamenn hefðu augljóslega sótt í sólina á Austurlandi. Auk þess sagðist hann varla hafa séð innlenda ferðamenn á svæðinu á meðan á Heimsmeistaramótið í fótbolta (HM) stóð yfir fyrr í sumar.

Þau Guðmundur og Sonja sögðust ekki hafa tekið mikið eftir þessari tengingu við HM en sögðu að veðrið hefði verið slæmt og það hefði mikið að segja. Öll voru þau sammála um skortinn á innlendum ferðamönnum og að þeir erlendu væru færri en oft áður.

Aron Ingi
aron@bb.is