Býsna stór helgi á Vagninum, Geirfuglarnir og allskonar

Vagninn er alltaf hinsegin og styður alla. Mynd: Óttar Guðjónsson.

Jafnvel þó sumarfuglarnir á Vestfjörðum sé farnir að flögra til sín heima handan við Breiðafjörð og Faxaflóa þá eimir enn af öngum skipulagninga þeirra og skemmtunum. Til dæmis er býsna stór helgi núna á Vagninum á Flateyri sem hefst í kvöld með bargiski herra Hannibals Hafberg. Hannibal þekkja margir en samt ekki. Hann er frækinn garpur sem hefur dvalið við störf á Grænlandi undanfarin misseri en setið sveittur alla síðustu viku og verið frá vinnu vegna álagsins sem fylgir því að búa til bargisk á Vagninum. Hannibal er fæddur og uppalinn á Flateyri, en Sindri Kjartansson Vagnstjóri kynntist honum fyrst á barnum þegar Hannibal var 10 ára gamall. Þá vann Sindri að þáttagerð um Johnny National og Lýður, sá margfrægi læknir hafði tekið upp myndband af Hannibal hoppandi í á og var að sýna það á breiðtjaldi á Vagninum. Hannibal var ekki par ánægður með þetta uppátæki Lýðs, þótti það sýna lítt karlmennskulegar hliðar á sjálfum sér og leitaði því til Sindra eftir lögfræðiaðstoð því hann vildi sækja mál gegn Lýði.

Uppfrá þessu átti Hannibal samt margar gleðistundir á Vagninum svo í kvöld mun hann mæta með þetta svaðalega bargisk sem fáir geta átt von á að vinna.

Þar stoppar þó ekki ein báran stök því á morgun, laugardaginn 11. ágúst er ball með Geirfuglunum sem hafa ekki komið saman í háa herrans tíð. Þau sem þekkja Geirfuglana vita að þeir eiga von á góðu enda þarf ekki að skrifa meira í viðburðalýsinguna hjá Vagninum en: „Stuð fram á rauða nótt.“ Og stuðið er svo sannarlega alltaf á Vagninum.
Sunnudagurinn er ekki síðri en þá mætir Teitur Magnússon með Æðisgenginu en þeir halda tónleika klukkan 21 á sama Vagni. Söngvaskáldið Teitur Magnússon sendi frá sér sína aðra breiðskífu sem hlaut nafnið Orna, föstudaginn 27. júlí. Platan inniheldur 8 ný lög. Teitur gat sér áður gott orð sem söngvari og lagahöfundur reggae sveitarinnar Ojba Rasta og fyrsta sólóplata hans 27 frá árinu 2014 hlaut einróma lof tónlistarunnenda og gagnrýnenda.

Frítt er inn en hægt verður að tryggja sér eintak af nýju plötunni á hljómleikunum á geisladiski eða vinyl, á sérstöku kynningaverði. Einnig eru frjáls framlög auðvitað velkomin.

Sæbjörg

bb@bb.is

DEILA