Almenn ánægja með vestfirka fornminjadaginn

Guðmundur Björgvinsson sagnamaður sagði frá Kálfeyri. Mynd: Jón Jónsson.

Vestfirski fornminjadagurinn var haldinn á Suðureyri í síðustu viku og var góð aðsókn að viðburðinum. Um 40 mættu til að taka þátt og fræðast, en dagurinn var nú haldinn í fyrsta skipti í samvinnu margra aðila. Hugmyndin með uppátækinu er að nýta þennan dag sem tækifæri til að tengja fólk saman og miðla fróðleik um fornleifar og sögustaði á Vestfjörðum og skapa vettvang til að kynna verkefni sem snúast um skráningu, kortlagningu og rannsóknir á hverjum tíma. Líklega er meira um að vera á þessum vettvangi en flestir gera sér grein fyrir og aðeins hluti verkefna sem nú eru í gangi á Vestfjörðum var kynntur á fornminjadeginum að þessu sinni. Þegar hefur verið ákveðið að halda vestfirskan fornminjadag aftur að ári og er stefnan þá tekin á Strandir.

Erindi héldu Margrét H. Hallmundsdóttir fornleifafræðingur sem talaði annars vegar um yfirstandandi fornleifarannsóknir í Arnarfirði. Síðustu ár hafa verið í gangi rannsóknir á Hrafnseyri og á Auðkúlu er þessa dagana verið að grafa upp skála frá landnámsöld. Í öðru erindi talaði Margrét um almennt um landnámsskála og tilgátuhús, en Fornminjafélagið í Súgandafirði er að skoða möguleika á að byggja skála svipaðan þeim sem hafa fundist á Vestfjörðum frá landnámstíma og standa þar fyrir gestamóttöku og fræðslu.

Óskar Leifur Arnarsson fornleifafræðingur sagði frá framkvæmdarannsóknum á sunnanverðum Vestfjörðum, sem talsvert er um vegna ýmiskonar uppbyggingar. Einnig fór hann yfir rétt viðbrögð á vettvangi þegar fornleifar koma í ljós og sagði frá tóftum og minjum á Brjánslæk. Björk Magnúsdóttir fornleifafræðingur sagði frá fornleifarannsóknum á safnasvæðinu í Árbæ í Reykjavík og hvernig rannsókn þar, sem fyrirséð er að standi árum saman, hefur verið og verður notuð við fróðleiksmiðlun, námskeiðahald og kennslu.

Guðmundur Björgvinsson, sagnamaður frá Flateyri, sagði sögur af verstöðinni á Kálfeyri sem er nokkuð utan við þorpið á Flateyri. Þarna er einn merkasti minjastaður Önfirðinga og tóftir af verbúðunum vel sjáanlegar. Jón Jónsson, þjóðfræðingur á Ströndum, talaði síðan um þjóðtrú og sagnir um álagabletti, staði sem bannhelgi hvílir á. Magnaðar sögur eru sagðar um hvernig huldar vættir refsa þeim sem brjóta gegn þessari bannhelgi, en trú á álagabletti á fornar rætur og svipaðar hugmyndir má t.d. finna í Færeyjum, Skotlandi og Írlandi.

Að lokum var frumsýnd ný heimildarmynd sem Eyþór Eðvarðsson, formaður Fornminjafélags Súgandafjarðar, og Ingrid Kuhlman gerðu. Þar var sagt frá byggingu verbúðar í Súgandafirði, en sumarið 2016 og 2017 byggðu félagsmenn í Fornminjafélagi Súgandafjarðar verbúð líka þeim sem voru á Vestfjörðum fyrr á öldum. Verbúðin var byggð til að heiðra útvegssögu Íslands og þá tíð þegar forfeðurnir og formæðurnar fóru í verið. Bygging verbúðarinnar var mynduð og heimildarmynd gerð um framtakið sem fjölmargir komu að. Eftir vel heppnaðan dag þar sem fróðleik og skemmtun var fléttað saman, gafst fólki síðan færi á að heimsækja verbúðina og skoða hana.

Myndirnar tóku Ingrid Kuhlman, Ester Sigfúsdóttir og Jón Jónsson.

 

Dagrún Ósk
dagrun@bb.is

DEILA