Act Alone byrjar á fimmtudaginn

Einleikjahátíðin Act Alone verður haldin á Suðureyri dagana 9.-11. ágúst næstkomandi. Dagskráin er þétt setin og er óhætt að segja að hátíðin verði glæsilegri með hverju árinu. Gamanið byrjar á kvöldmáltíð á fimmtudagskvöldinu 9. ágúst. Eftir hana verður Pétur Örn með tónleika og gamanmál. Pétur Örn, oft kallaður Pétur Jesú hefur helst verið þekktur fyrir að vera í hljómsveitunum Buff og Dúndurfréttum auk þess að vera einn afkastamesti bakraddasöngvari í hinni síelskuðu Júróvisjónkeppni. Hann hefur þó í auknum mæli verið að koma einn fram með kassagítarinn á alls kyns viðburðum.

Eftir Péturs Jesú verður boðið upp á hraðólgandi, seigfljótandi og hvítfryssandi ljóðaslamm. En hvað skyldi ljóðaslamm vera eiginlega? Sagt er að það sé blanda af ljóðaflutningi og leiklist, nánd, ofsa, kátínu og depurð flutt á einstæðan hátt af Íslandsmeistara þessa stíls, Jakobi Valgeiri. Á eftir slamminu ríður Franziska Günther á vaðið með tónleikum. Franziska Günther er söngvari og söngvaskáld, sem býr í Berlín, Þýskalandi og hefur oft spilað með trúbadornum Sigga Björns frá Flateyri. Franziska fangar áhorfendur sína með heiðarlegri rödd sinni, einstökum textum, sögum og líflegum gítarhljóðum.

Að því loknu verður boðið upp á keppnina um fyndnasta mann Vestfjarða og strax í kjölfarið verður uppistand í boði Jóns Hlöðvers Böðvarssonar, betur þekktur sem Nonni Bö. Nonni leitar að vestfirskri stúlku sem vann með honum á Pizza67 árið 1998. Hún var með spékoppa, í grænum gallabuxum og með lokk í tungunni. Þessi skvísa hefur aldrei farið úr huga Nonna þó hún hafi horfið úr lífi hans eftir nokkra daga. Hann er nú kominn vestur að biðja heimamenn um hjálp að finna draum dísa sinna.

Dagskrá fimmtudagsins lýkur svo með sýningunni Fragility White & Blue sem er svokallaður myndbandleikur með listamanninum Laura Durban eftir tónlist Francesco Fabris.

Hægt er að kynna sér dagskrá helgarinnar betur á www.actalone.net

Aron Ingi
aron@bb.is

DEILA