Golfvertíðin nálgast hápunkt

Frá afmælismóti Golfklúbbs Ísafjarðar sumarið 2018.

Nú líður að hápunkti golfvertíðar við Djúp, en tveir golfvellir eru reknir á svæðinu, Syðridalsvöllur í Bolungarvík og Tungudalsvöllur á Ísafirði. Þetta eru ólíkir vellir og hefur hver um sig sinn sjarma; Syðridalsvöllur er svona strandvöllur en Tungudalsvöll má kalla skógarvöll. Báðir vellirnir eru mjög vel hirtir og í fullkomnu standi í dag.

H.G. mótið markar hápunkt Sjávarútvegsmótarraðarinnar, en þá eru spilaðir tvisvar sinnum 18 holur á tveimur dögum, en mótið fer fram 18. og 19. ágúst. Í framhaldi verður sigurvegari mótarraðarinnar verðlaunaður. Staðan í dag er sú að Janusz Pawel Duszak er efstur með 7.259 stig, annar er Karl Ingi Vilbergsson með 6.036 stig og Baldur Ingi Jónasson er í þriðja sæti með 5.002 stig.

Þessi ungi golfari á Ísafirði er mjög efnilegur.

Engin mót eru um þessa helgi, en ekki er hefð fyrir golfmótum á sama tíma og Sveitakeppni golfklúbba fer fram á Íslandi. En fyrir utan hefðbundin fimmtudagsmót verður Landsbankamótið haldið 25. ágúst. Nettómótið verður haldið 1. september en þar verður fyrst keppt á Syðridalsvelli og í síðan klárað í Tungudal, níu holur á hvorum velli. Veitingamótið verður haldið 8. september en það mót er með svokölluðu „Texas scramble“ fyrirkomulagi, þar sem tveir keppa saman í holli, og betri bolti notaður. Þetta þykir mjög skemmtilegt fyrirkomulag og oftar en ekki eru há og lág forgjafar golfarar saman í liði, en mótið er punktamót. Í Ísafjarðarbæ lýkur vertíðinni síðan á Bændaglímunni þar sem keppni er milli tveggja liða, svona Ryder fyrirkomulag.Í Bolungarvík var Pepsí mótið haldið um síðustu helgi en mótshaldi í ár lýkur með Nettómótinu.

Golfklúbbur Ísafjarðar varð 40 ára í ár og í tilefni þess ætla félagar að fjölmenna í afmælisferð til La Sella á Spáni um mánaðarmótin september-október. Klúbburinn hefur komið sér upp golfhermi við Sundahöfn á Ísafirði og þangað flyst starfsemi kúbbsins fyrir veturinn þar sem boðið verður upp á aðstöðu til æfinga og spilunar á mörgum frægustu golfvöllum heimsins í tölvuheimum.

Gunnar

DEILA