Ýmislegt á seyði í Skjaldborgarbíói á Patreksfirði

Skjaldborgarbíó var nánast fullt útúr dyrum þegar Mamma Mia! Here we go again var sýnd sunnudagskvöldið 22. júlí síðastliðinn. Mynd: Atli Már Hafsteinsson

Það er óhætt að segja að kvikmyndahúsið Skjaldborg á Patreksfirði sé afar vinsælt hjá bæjarbúum. Sunnudagskvöldið 22. júlí síðastliðinn var kvikmyndin Mamma Mia! Here we go again sýnd fyrir nánast fullu húsi, en aðeins 10 sæti voru laus af 165 sætum. Það er Lionsklúbburinn á Patreksfirði sem rekur kvikmyndahúsið og sér um allt sem snýr að starfseminni innandyra en sveitarfélagið Vesturbyggð á bygginguna. Páll Vilhjálmsson, íbúi Patreksfjarðar og meðlimur Lionsklúbbsins segir að kvikmyndahúsið sé í raun og veru menningarmiðstöð.

„Við bjóðum upp á tónleika, leiksýningar og svo er bíóið opið fólki, fyrirtækjum og samtökum sem vill vera með ráðstefnur og fundi. Svo er hægt að halda upp á barnaafmæli hér og alls kyns samkomur. Við sýnum tvær til fjórar kvikmyndir á viku, alltaf á föstudögum og sunnudögum og svo bætast stundum við barnasýningar. Svo þegar það eru stórmyndir þá bætast stundum við laugardagar líka.“ segir Páll.

Það var mikið líf og fjör í Skjaldborgarbíó í sumar, en fótboltaleikir Íslands voru sýndir þar. „Við sýnum alla landsleiki Íslands, bæði hjá körlum og konum. Þess má geta að Lionsmenn vinna þetta í sjálfboðavinnu og hafa mjög gaman af því og hefur þetta gengið mjög vel. Vesturbyggð og dreifingaraðilar kvikmyndanna skipta með sér aðgangseyrinum en Lionsklúbburinn fær þær tekjur sem koma inn í sjoppunni.“ segir Páll að lokum.

Aron Ingi
aron@bb.is

DEILA