Yfir 500 manns að keppa á Hlaupahátíð á Vestfjörðum

Alvöru fjallahjólreiðar. Mynd: Ágúst G. Atlason.

Þessa dagana má sjá marga hlaupa, skokka, hjóla eða jafnvel bara valhoppa um norðanverða Vestfirði. Það er nefnilega hlaupahátíð í gangi en hún hófst á fimmtudaginn og lýkur í dag. Þó hátíðin kallist hlaupahátíð þá er ýmislegt annað gert þar. Hátíðin hófst þó með Skálavíkurhlaupi á fimmtudaginn en þetta var í fyrsta sinn sem sú leið er farin á þessari hátíð. Þar var Gísli Einar Árnason, frá hlaupafélaginu Kára fyrstur í mark hjá körlum í 13 km hlaupi en hann hljóp á tímanum 00:50:57. Fyrst kvenna var Elín Marta Eiríksdóttir Gullrilla á tímanum 00:59:20. Í 20 km Skálavíkurhlaupi var Arnar Ólafsson frá SKA fyrstur á tímanum 01:26:48 og í flokki kvenna var Kristrún Guðnadóttir fyrst á 01:35:50 mínútum.

Á föstudaginn var svo haldið í sjósund en keppendur skelltu sér til sunds frá Sæfara á Ísafirði. Þar var Katrín Pálsdóttir úr Bolungarvík fyrst kvenna í 1500 m sjósundi og Karl Ásgeirsson frá Riddurum Rósu fyrstur karla. Einnig var keppt í 500 m sjósundi og þá var Karen Mist Arngeirsdóttir fyrst kvenna og Jakob Daníelsson frá Skíðafélagi Ísafjarðar fyrstur karla. Sama dag var líka farið 21 km og 10 km Arnarneshlaup. Í 21 km hlaupinu fór Arna Sigríður Albertsdóttir hraðast á handhjóli á tímanum 00:50:41. Næst á eftir henni kom Katrín Sif Kristbjörnsdóttir úr Team Craft á 01:41:20 mínútum. Í flokki karla var Rúnar Sigurðsson Árbæjarskokkari fljótastur á 01:32:08. Í 10 km Arnarneshlaupi var Linda Rós Hannesdóttir SFÍ fljótust kvenna en Sigurjón Ernir Sturluson, Sportvörum/Dansport fljótastur karla.

Laugardaginn 14. júlí fóru vaskir hjólreiðakappar yfir Vesturgötu og einnig var skemmtiskokk fyrir alla fjölskylduna á Þingeyri. Yfir 500 manns eru skráðir til keppni í hinum ýmsu greinum og samkvæmt Guðbjörgu Rós Sigurðardóttur sem er einn af skipuleggjundum hátíðarinnar hefur allt farið vel fram og gengið mjög vel. „Það var flott veður þegar Skálavíkurhlaupið var farið og endað í sundlauginni þar sem verðlaunaafhendingin fór fram,“ sagði Guðbjörg í samtali við BB. „Veðrið er búið að vera mjög gott, smá rigning á laugardagsmorgun en síðan sól og búið að vera sól nánast allan tímann.“

Það eru margir sem koma á hlaupahátíðina og víðsvegar að. Einn þeirra er Arnar Þór Jóhannesson sem dvelur á Ísafirði ásamt konu og syni en býr allajafna á Akureyri. „Ég ætla að hlaupa 24 kílómetra eða heila Vesturgötu,“ sagði Arnar í samtali við BB. „Við erum hérna nokkrar fjölskyldur saman til að taka þátt í þessari hlaupahátíð, fólk sem býr bæði á Akureyri og í Reykjavík og við leigðum okkur hús saman og hver er bara að fara að gera sitt. Sumir er að fara að hjóla og aðrir að hlaupa og mismunandi vegalengdir, bara það sem hver og einn vill gera.“ Arnar er búinn að undirbúa sig í heilt ár, en ekki endilega bara fyrir Vesturgötuhlaupið heldur mun hann líka taka þátt í hálfmaraþoni í Austurríki í haust með hlaupahópnum sínum sem kallast Eyrarskokk á Akureyri.

Meðfylgjandi myndir eru flestar teknar af Ágústi G. Atlasyni og fengnar með leyfi Hlaupahátíðar.

Sæbjörg
bb@bb.is

DEILA