Vildu helst að byggð yrði ný sundlaug

Sundhöllin á Ísafirði.

Niðurstöður úr könnun um viðhorf íbúa Ísafjarðarbæjar til Sundhallarinnar á Ísafirði og framtíðar hennar hafa verið birtar. Könnunin fór fram dagana 12. apríl til 7. maí 2018 og var framkvæmd af Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands fyrir Ísafjarðarbæ. Markmiðið að kanna viðhorf íbúa Ísafjarðarbæjar til Sundhallarinnar á Ísafirði og hvernig íbúar sjá framtíð Sundhallarinnar fyrir sér. Þau sem svöruðu könnuninni vildu helst að byggð yrði ný sundlaug en vildu þó ekki að Sundhöllinni yrði lokað.

Íbúar voru meðal annars spurðir; hvað skiptir mestu máli að sé til staðar í sundlaug á Ísafirði, hve miklu fé er réttlætanlegt að verja í endurbætur á sundlaug, hvert er viðhorf til tillögu að endurbótum á húsnæðinu við Austurveg og vilt þú nýja sundlaug á Torfnesi? Könnunin náði til 2957 íbúa sveitarfélagsins sem höfðu náð 18 ára aldri. Svarhlutfall var 32% sem þýðir að 939 svöruðu könnuninni.

Helstu niðurstöður kannanarinnar eru að:

,,Svarendur, óháð aldri, vildu helst að byggð yrði ný sundlaug en vildu þó ekki að Sundhöllinni yrði lokað. Tæpur helmingur sagði óhugsandi að loka Sundhöllinni. Samhliða greining studdi þessar niðurstöður. Leiddi hún í ljós að íbúar vilja allra helst 25 metra laug (sem kallar á nýbyggingu) með sólbekkjaaðstöðu, vaðlaug, rennibraut, heitum potti og nuddpotti þó tekið sé tillit til kostnaðar.
Þátttakendur voru almennt ekki ánægðir með vinningstillögu að endurbótum Sundhallarinnar og var 41% sem vildi að unnið yrði eftir þessari tillögu að einhverju leiti ef farið yrði í meiriháttar endurbætur. Þá voru íbúar almennt fylgjandi því að byggð yrði ný líkamsræktarstöð og hún yrði staðsett á Torfnesi,’’ segir úr niðurstöðunum.
Í niðurstöðum kemur einnig fram að helmingur svarenda, eða 47% fara oftast í Sundlaug Bolungarvíkur og var það algengara á meðal þeirra yngri en eldri. Um fjórðungur fór oftast í Sundhöll Ísafjarðar og var það algengara meðal eldri íbua.
Niðurstöður könnuninnar má sjá í heild sinni hér.

Ísabella
Isabellaosk22@gmail.com

DEILA