Vegurinn að Látrabjargi er í mjög lélegu ástandi

Eins og sjá má þá er vegurinn ansi holóttur og í slæmu ásigkomulagi. Mynd: Marino Thorlacius.

Vegurinn að Látrabjargi á sunnanverðum Vestfjörðum er í slæmu ásigkomulagi eftir veturinn. Mikið er um djúpar holur og er bæði hætta á að fólk skemmi bíla sína auk þess sem um mikla slysahættu sé að ræða. Marino Thorlacius er alinn upp í Örlygshöfn og er með lögheimili sitt þar en starfar víða sem ljósmyndari. Hann birti nýlega á Facebook síðu sinni myndband sem sýnir ástand vegarins og hefur myndbandið fengið mikil viðbrögð. Marino segir að ástandið sýni vel hvar áherslur Vegagerðarinnar liggja. „Vegagerðin og Vesturbyggð virðast ekki skilja það að Látrabjarg og Rauðisandur eru staðirnir sem trekkja fólk á sunnanverða Vestfirði. Þetta aðgengi skaðar ímynd svæðisins og er ekki boðleg á neinn hátt. Það að starfsmenn geti verið að bæta við stikum í Kjálkafirði í júlí mánuði með ástandið svona hérna sýnir hvar hugsunin liggur.“

Mynd: Marino Thorlacius

Marino segir að viðmótið sé yfirleitt eins og allt sem er gert við þennan veg sé í greiðaskyni við tuðandi heimamenn. Hann segir að stór fjárhagsleg lífæð svæðisins fari þarna í gegn og sveitarfélagið passi uppá að hirða öll gjöld af ferðaþjónustuaðilum. „Það vita það allir hér að þetta eru sveitavegir og að þeir eru ekki 100% en það er ekki boðlegt að þeir séu 20% á háannatíma og Vegagerðin sé með sínar græjur á vegum sem mikið minna mæðir á. Forgangsröðunin er algjörlega hlægileg. Og ekki skal gleyma því að hér býr fólk sem neyðist til að keyra þessa vegi, slit á bílum er gífurlegt. Hér á milli bæja er leyfilegur hámarkshraði 80 km á klst með blindhæð þar að auki. Vegagerðin sýnir nákvæmlega engan vilja til að bregðast við því ástandi og bera allt af sér. Það þarf kannski bara einhver heimamaður í réttri ætt að lenda í slysi hér, þá verður kannski eitthvað gert.“ segir Marino að lokum.

Aron Ingi
aron@bb.is

DEILA