„Umhverfið er miklu hrikalegra en ég bjóst við“

Það er ekki öll vitleysan eins þegar kemur að Vagninum á Flateyri og í raun er þar engin vitleysa heldur stanslaus gleði og gaman allt sumarið og stundum á veturna. Til dæmis um daginn, þá datt eigendum Vagnsins í hug að fá Ara Eldjárn til að skemmta á þessum pínulitla stað. Svo vel tókst til að húsið fylltist tvisvar og svo duglega að þeir Flateyringar sem mættu þurftu að sitja undir aðkomufólki. Þar fyrir utan eru endalausar skemmtanir allar helgar og þjóðþekktir tónlistarmenn sem leggja þangað leið sína til að spila fyrir menningarþyrsta. Þar er sem sagt aldrei ein báran stök og alls ekki slök.

Þau Beta og Óli, eða Elísabet Reynisdóttir sem eldar og Óli Hjörtur Ólafsson þjónn, ráða yfir eldhúsi og sal Vagnsins í sumar. Beta kom þar aðeins við í fyrra sem afleysingakokkur en Óli er að stíga sín fyrstu skref í veitingasölum Vestfjarða og jafnvel sín fyrstu skref utan Reykjavíkur. Hann er fæddur þar og uppalinn en Beta kemur upphaflega úr eyjum og Vopnafirði. Hún þekkir því smábæjarlífið vel, en ekki hann. Og af hverju dettur þá nokkrum manni í hug að ráða sig í vinnu á Flateyri?

„Sindri Kjartansson, einn eigandi Vagnsins bauð mér starfið og mér fannst þetta tilvalið tækifæri til að prófa eitthvað nýtt,“ sagði Óli þegar blaðamaður BB hváði yfir staðarvali sumarsins. „Ég hafði aldrei komið á Vestfirði,“ heldur hann áfram, „Svo þetta var tilvalið tækifæri og ég sé bara alls ekki eftir því þetta hefur verið æðislegt,“ segir hann sáttur.

„Ég var hérna í fyrra og leysti kokkinn af og svo var ég bara á tímamótum og var plötuð til að koma hingað í tvo mánuði,“ er svar Betu við sömu spurningu. „Ég er næringarfræðingur að mennt en ekki kokkur svo ég stökk bara út í djúpu. Þetta hefur gengið rosalega fínt, málið er bara að bjóða upp á einfaldan og góðan mat og þá gengur þetta vel. En mig langaði að vera á Flateyri og þetta var tækifærið,“ segir hún og kann greinilega vel við sig fyrir vestan.

Matseðillinn á Vagninum hefur verið svipaður og árið á undan. Einfaldur en góður, með til dæmis fiski dagsins, grænmetisréttum og himneskri fiskisúpu Betu sem státar af því undarlega en fullkomna hráefni; reyktum rabarbara. „Annars er bara lagt upp með gott andrúmsloft og almennilegan mat og það hefur heppnast hingað til, er það ekki Óli?“ Spyr Beta félaga sinn sem svarar að hann telji það víst. „Já þú hefur líka bara hent þeim út og sagt þeim að fara suður ef þeir eru ekki ánægðir,“ bætir Beta við stríðin og skellihlær. „Nei nei, þetta hefur verið rosafínt,“ segir hún þegar hláturkviðunum lygnir en andrúmsloftið er greinilega gott hjá veitingafélögunum og gleðin mikil eins og sjá má á myndunum.


Eins og á öðrum veitingastöðum var fremur lítið að gera á meðan að heimsmeistaramótið í knattspyrnu stóð. Það hefur þó verið að glæðast og þau nefna að Vagninn hafi haldið dampi með mörgum uppákomum og íbúafjöldinn á Flateyri hafi tvöfaldast tvisvar í sumar. Annarsvegar vegna brúðkaups og hinsvegar vegna fimmtugsafmælis Betu. „Mér finnst ótrúlega fínt að vera hérna,“ segir Óli. „Og þetta er kær tilbreyting frá Reykjavík. Ég fann líka þegar ég kom hingað að ég hafði þörf fyrir að kúpla mig aðeins frá borginni í smá tíma. Flateyri er samt miklu minni en ég hélt að hún væri því ég hélt að hér byggju um 300 manns. En þetta er einn af fallegustu stöðunum á landinu að mínu mati,“ segir þjónninn dreyminn. „Hvað hefurðu ekki komið á Vopnafjörð eða?“ grípur stríðni kokkurinn frammí og hlátrasköllin óma um salinn.
„Ég bjóst reyndar við kannski aðeins pínu meira,“ heldur Óli áfram og er greinilega orðinn vanur stríðninni í Betu. „En það er ekkert sem er búið að fara í taugarnar á mér. Og maður lærir bara að meta lífið. En ég gæti ekki verið hérna á veturna, þrír mánuðir eru alveg nóg því ég er svo mikið borgarbarn í mér. En maður þarf stundum að sleppa frá því, það er bara hollt.“
„‘Eg elska þetta aftur á móti og gæti alveg verið hérna allan veturinn,“ segir Beta. „Ég er náttúrulega vön þessu og alin upp í smábæ. En mér finnst bara eitthvað annað við Flateyri. Mér finnst alveg yndislegt að vera hérna,“ segir hún og Óli bætir við: „Já það er einhver svona orka eða sjarmi við þetta.“„Jáhh,“ segir Beta á innsoginu, „fólkið er svo yndislegt og mér finnst þetta bara æðislegt.“

Beta nefnir líka að eftir nokkrar vikur fyrir vestan hafi vinir hennar haft orð á því hvað hún liti út fyrir að afslöppuð og líða vel. Beta gæti alveg hugsað sér að búa á Flateyri og hún segir að það sé eitthvað magical, eða töfrandi við staðinn. Óli er sammála og BB fýsti að vita hvað það hafi verið sem kom honum mest á óvart? „Aðallega fjöllin. Ég vissi að þau væru hrikaleg, ég hef alveg ferðast um Ísland áður þó ég hafi ekki komið hingað fyrr, en fjöllin eru svo hrikaleg og öll náttúran. Svo var líka gaman að sjá seli og refi í fyrsta skiptið, ég hafði aldrei séð það áður. En aðallega var það umhverfið sem kom á óvart. Það er miklu hrikalegra en ég bjóst við,“ segir Óli Hjörtur, yfirþjónn á Vagninum.

Sæbjörg
bb@bb.is