Tekjur Kerecis á Ísafirði nálgast milljarð

Guðmundur, Baldur Tumi og Hilmar í Kerecis. Mynd: Birgir Ísleifur Gunnarsson.

Ný samanburðarrannsókn á meðhöndlun þrálátra sára staðfestir að sáravörur sem íslenska lækningavörufyrirtækið Kerecis vinnur á Ísafirði skilar umtalsvert betri árangri en EpiFix®, sem er mest notaða sáravaran við meðhöndlun slíkra sára í Bandaríkjunum. Íslensku vörurnar eru unnar á umhverfisvænan hátt úr þorskroði, en helsta samkeppnisvaran er framleidd úr fósturbelgjum nýbura. Niðurstöður rannsóknarinnar voru birtar á ársþingi bandarískra fótlækna í Washington í liðinni viku, þar sem þær vöktu mikla athygli.
Eftirspurn eftir lækningavörum af þessu tagi er mikil í Bandaríkjunum, enda fjölgar þeim hratt sem kljást þar við þrálát sár, t.d. vegna sykursýki sem orðin er að faraldri. Um 420 milljónir manna þjást af sykursýki í heiminum og sjúklingum fjölgar hratt. Í Bandaríkjunum eru um hundrað þúsund aflimanir gerðar ár hvert vegna þrálátra sára sem hljótast af sykursýki og ekki tekst að græða. Markmið Kerecis er að bjóða lækningavöru sem græðir slík sár hratt og vel og auka þannig lífsgæði sjúklinga.

Sáraroðið er samþykkt sem lækningavara af bandarískum og evrópskum heilbrigðisyfirvöldum, auk þess sem Medicare í Bandaríkjunum greiðir fyrir notkun vörunnar í öllum 50 ríkjum Bandaríkjanna. Þúsundir einkarekinna heilsutryggingarfélaga greiða einnig fyrir notkun hennar.

Tímamótarannsókn með afgerandi niðurstöðum
Í nýju rannsókninni var kannað hversu hratt 170 djúp sár greru eftir meðhöndlun með sitt hvorri lækningavörunni. Tvö sár voru gerð á 85 sjálfboðaliða, þar sem annað sárið var meðhöndlað með íslensku sáraroði en hitt með himnu úr fósturbelg. Sárin voru svo skoðuð skipulega á fjögurra vikna tímabili til að meta árangurinn.

Niðurstöður rannsóknarinnar voru afgerandi, þar sem sár meðhöndluð með íslensku sáraroði gréru marktækt hraðar en hin. Til dæmis höfðu 68% fleiri sáraroðssár gróið á 14. degi rannsóknarinnar og á degi 18 voru þau 83% fleiri. Við lok rannsóknarinnar var marktækur munur á heildarfjölda gróinna sára, þar sem tvöfalt fleiri fósturbelgssár voru ógróin samanborið við þau sem meðhöndluð voru með íslensku sáraroði.

Guðmundur Fertram Sigurjónsson, stofnandi og forstjóri Kerecis segir: „Þessi tímamótarannsókn skapar mikil sóknarfæri fyrir okkur, á markaði sem veltir um 130 milljörðum króna á ári. Hún staðfestir hve íslenskt sáraroð er góð lækningavara, auk þess að vera hagkvæm og einföld í notkun. Framboðið af hráefni til framleiðslunnar er nægt, ólíkt því sem gerist hjá okkar helstu keppinautum, og það eru engar menningar- eða trúarlegar hindranir fyrir notkun á vörunni sem kemur úr sjálfbærum fiskistofni í tandurhreinum sjó.“

„Okkur hefur gengið mjög vel á þessum harða samkeppnismarkaði undanfarin ár og tekjur félagsins hafa vaxið hratt. Á síðasta ári fengum við Vaxtarsprotann fyrir að vera það fyrirtæki sem er í hröðustum vexti á Íslandi en þá fjórfölduðum við sölutekjurnar milli ára. Allt stefnir í að við endurtökum þann tekjuvöxt í ár og tekjurnar nálgist því milljarðinn á árinu.“

„Við erum spennt fyrir viðskiptatækifærunum framundan, en líka stolt af því að íslenskt hugvit og nýting á íslensku hráefni sé að auka lífsgæði fólks um allan heim, forða fólki frá aflimunum og jafnvel bjarga mannslífum. Við trúum því að íslenskt sáraroð muni valda straumhvörfum í meðhöndlun krónískra sára í heiminum og milljónir manna muni njóta góðs af.“

Um Kerecis® Omega3 sáraroðið
Kerecis Omega3 sáraroð er unnið úr heilu þorskroði, sem fellur til við fiskvinnslu á Vestfjörðum. Með sérstakri aðferð eru frumur fjarlægðar úr roðinu, en þess að skaða grunngerð þess. Ásýndar er sáraroðið líkt venjulegu fiskiroði, fyrir utan að vera hvítt að lit.
Við notkun er sáraroðið lagt ofan í skemmdan vef – ekki yfir hann – og vaxa þá heilbrigðar frumur líkamans inní roðið. Þannig verður smám saman til nýr og heilbrigður líkamsvefur, á meðan að sáraroðið frá Kerecis brotnar hægt niður og hverfur að endingu úr líkamanum.
Kerecis® Omega3 sáraroðið er einkaleyfaverndað í yfir 50 löndum, þar á meðal Bandaríkjunum. Sáraroðið er fáanlegt í Bandaríkjunum, Íslandi, Þýskalandi, nokkrum öðrum Evrópu- og Asíulöndum. Í samvinnu við bandaríska varnarmálaráðuneytið er Kerecis að vinna að aðlögun vörunnar til meðhöndlunar á sárum sem hljótast af stríðsátökum.
Kerecis er lækningavörufyrirtæki sem hefur þróað einkaleyfavarða tækni til viðgerða á líkamsvef. Einkaleyfið gildir í yfir 50 löndum. Kerecis er eina fyrirtækið sem framleiðir og markaðssetur roð til læknisfræðilegra nota.

Samkeppnisvörur Kerecis® Omega3 sáraroðsins eru unnar úr ýmsum efnum, s.s. svínshúð, kálfshúð, fósturbelgjum og líkhúð. Í mörgum tilvikum eru menningar- eða trúarlegar hömlur á notkun slíkra vara. Engar slíkar hömlur eru á notkun sáraroðs úr fiski, auk þess sem engir sjúkdómar berast frá fiskum til manna. Kerecis notar ekki sterk kemísk efni í vinnsluferli vörunnar, öfugt við keppinauta sem nota sterk efni til að fjarlægja allar fitur og uppleysanleg prótein úr græðlingunum þannig að eftir standi aðeins trefjaprótein. Sáraroð frá Kerecis er þykkra og auðveldara í notkun en samkeppnisvörur frá öðrum framleiðendum.

Í sáraroði Kerecis eru trefjakennd prótein, fitur, sykruprótein og fjölsykrur. Próteinin eru m.a. kollagen, keratin og elastin. Fjölmargar fitugerðir er í roðinu m.a. Omega3 fitusýrur. Rannsóknir sýna að Omega3 fitusýrur hafa bólguminnkandi áhrif auka þess að minnka líkur á ígerð í sárum og öðrum sköðuðum líkamsvef. Fyrirtækið vinnur að þróun á vörum til viðgerða á heilabasti og kviðslitum, ásamt lækningavörum sem nota má til enduruppbyggingar á brjóstum eftir krabbamein og til nota við magaminnkun. Markmið Kerecis er að tækni fyrirtækisins verði nýtt til viðgerða eða endursköpunar á flóknari líffærum líkamans.

Í vísindaráði Kerecis sitja fjórir heimsþekktir vísindamenn. Formaður ráðsins er prófessor Robert S. Kirsner, sem er leiðandi á sviði sárarannsókna í heiminum í dag. Félagið vinnur með ýmsum fyrirtækjum og stofnunum á Íslandi og erlendis. Samstarf Kerecis og bandaríska varnamálaráðuneytisins um þróun á sáravöru til bráðameðhöndlunar á vefjaskaða er eitt af mikilvægari verkefnum fyrirtækisins.

Sæbjörg

bb@bb.is

DEILA