Tálknafjör um næstu helgi

Það var gríðarmikið stuð á síðasta Tálknafjöri.

Það verður heldur betur líf og í fjör á Tálknafirði þegar bæjarhátíðin Tálknafjör verður haldin hátíðleg um næstu helgi. Tálknafjör er haldið annað hvert ár og óhætt er að segja að dagskráin sé mjög glæsileg, til dæmis verður froðurennibrautin vinsæla á sínum stað. Gunnar Smári Jóhannesson, sem margir á sunnanverðum Vestfjörðum kannast við, mun sjá um spurningakeppni sem haldin verður en það er iðulega líf og fjör á þeim kvöldum sem keppnin er haldin og mikið hlegið. Heyrst hefur að Gunnar sé búinn að liggja undir feldi við að semja efni og spurningar fyrir þetta tilefni.

Svo má ekki gleyma hinni árlegu dorgveiðikeppni. Mögulegt er að krækja í ýmislegt á bryggju Tálknafjarðar líkt og kola, ufsa, þorsk, marhnút og krabba. Keppt verður í þremur flokkum þetta árið, flestu fiskarnir, stærsti fiskurinn og furðufiskur Tálknafjörs 2018. Nú er um að gera að sækja gamla góða spónin og skella sér niður á höfn.

Það ríkir mikil eftirvænting fyrir hátíðinni og stefna Pollvinir á að ljúka framkvæmdum við stækkun Pollsins á Tálknafirði áður en hátíðin skellur á og því verður vonandi hægt að njóta þeirrar stækkunar við þetta skemmtilega tilefni.

Dæmi um fleiri dagskrárliði á hátíðinni eru hagyrðingakvöld, trúbadorskemmtun, fótboltakeppni, hoppukastalar, skemmtidagskrá á hátíðarsvæðinu, söngvakeppni barnanna, ratleikur yfir daginn, happdrætti, dansiball og grillveisla þar sem á boðstólnum verður hrefnukjöt og heilir skrokkar. Þess helgi koma margir brottfluttir á svæðið, búið er að panta góða veðrið og aðstandendur hátíðarinnar lofa góðri skemmtun. Það er því um að gera að gera sér ferð á Tálknafjörð.

Aron Ingi

aron@bb.is

DEILA