Tálknafjör um helgina

Risa vatnsrennibraut er sett upp í tilefni hátíðarinnar og vekur hún alltaf mikla kátínu meðal gesta. Mynd: Tálknafjör.

Þorpshátíðin Tálknafjör hófst í gærkvöld, fimmtudagskvöldið 26. júlí og er ýmislegt í boði alla helgina. Að sögn Gunnbjörns Ólafssonar, eins af forsvarsmönnum hátíðarinnar, þá er veðurspáin góð og lofar hann miklu fjöri í bænum næstu daga. „Já fjörið byrjaði í gær. Einhverjir ætluðu að synda yfir fjörðinn, svo var bjór bingó, keppt í félagsvist og margt að gerast. Það er geggjað veður þannig að þetta lítur vel. Það er komið líf í bæinn og það lofar góðu, það eru margir brottfluttir sem koma á þessa hátíð og er mjög gaman fyrir fólk að kíkja heim aftur.“ segir Gunnbjörn.

Í dag, föstudag, er svo fótboltamót og brenna og mun trúbador spila við það tilefni. Síðar um kvöldið er svo pub-quiz. Gunnbjörn segir að þetta sé mikil fjölskylduhátíð og í raun stórt ættarmót. Við þetta tilefni hittist Tálknfirðingar og geri sér glaðan dag. „Laugardagurinn er í raun aðaldagurinn, þá eru hoppukastalar á svæðinu og svo ratleikur þar sem er haugur af þrautum sem enda í risa vatnsrennibraut niður brekkuna hjá kirkjunni. Þetta er barnvæn og skemmtileg hátíð. Það er því um að gera að kíkja hingað og hafa gaman, það er nóg að gerast fyrir fullorðna sem og börn.“ segir Gunnbjörn að lokum.

Aron Ingi
aron@bb.is

DEILA