Sóknarnefndir hafa ekki mikið fjármagn fyrir viðhaldi

Það hafa margir beðið þess með eftirvæntingu að kirkjurnar í þorpunum yrðu málaðar og flikkað uppá þær enda mega sumar þeirra muna fífil sinn fegri. Fjölnir Ásbjörnsson, sóknarprestur í Önundar- og Súgandafirði, segir í samtali við BB að það sé ekki úr miklu að moða og sóknarnefndirnar þurfi að fara ýmsar leiðir til að finna fjármagn fyrir viðhaldi. Það liggur á þeim að finna lausnir og Fjölnir segir að brátt muni sóknarnefndin í Súgandafirði hittast til að fara yfir hvað þurfi að gera og hvað eigi að gera fyrir kirkjuna á Suðureyri. En þær gleðifregnir hafa borist að málarar eru byrjaðir að mála kirkjuna á Flateyri og gleðjast margir yfir því. Til stóð að mála kirkjuna í fyrra en verkamennirnir voru mjög uppteknir og höfðu ekki tíma áður en það fór að snjóa. Í sumar hefur hin eilífa rigning svo hamlað verkum en ekki lengur, skjannahvít málningin þekur nú óðum veggi sóknarkirkju Flateyringa.

Það verður mikill munur að sjá kirkjuna á Flateyri eftir viðgerðir og málun.

Sæbjörg
bb@bb.is

DEILA