Skortur á skiltum á sunnanverðum Vestfjörðum

Ferðaþjónar sem og almenningur hefur gagnrýnt skort á skiltum á sunnanverðum Vestfjörðum. Mynd: Julie Gasiglia

Borið hefur á gagnrýni meðal almennings og ferðaþjóna á sunnanverðum Vestfjörðum um að skortur sé á skiltum á svæðinu. Gagnrýnin hefur aðallega beinst að því að áfangastaðir séu illa merktir eða alls ekki merktir. Inga Hlín Valdimarsdóttir frá Minjasafninu að Hnjóti segir að þeim hjónum hafi verið neitað um að setja upp skilti til að auglýsa safnið. Hún segist verða vör við að skortur sé á skiltum á svæðinu. „Það eru langar vegalengdir á milli skilta hér á svæðinu og þess vegna væri betra ef það væri vilji til að þess að merkja betur. Við höfum ferðast um annarsstaðar, þar eru áfangastaðir vel merktir, eins og safnið á Hrafnseyri og einnig Ólafsdalur til að mynda. Það eru víða góðar merkingar og allt í einu er tekin ákvörðun hér að ekki verði fleiri skilti sett upp, það eru þau svör sem við fengum þegar við vorum að leita svara.“

Sigurður Mar Óskarsson, deildarstjóri hjá Vegagerðinni segir að málið snúist um að hafa stöðluð skilti og að þjónustudeild Vegagerðarinnar sjái um merkingar. „ Svokölluð þjónustumerki má setja upp eftir ákveðnum staðli. Það er getið um það í reglugerðum hvernig sá staðall er, ef skilti skal vera innan vegsvæðis. Innan vegssvæðis er sem sagt 20 til 20 metrar frá miðlínu vegar.“ segir Sigurður.

Sigurður segir að vandinn felist aðallega í því að þjónustuaðilar vilja hafa ýmsar gerðir af skiltum, jafnvel heimagerð. „Baráttan stendur um það að vera með þessi stöðluðu skilti sem eru viðurkennd. Merkingar og umferðarmerki eiga að vera til staðar þarna á sunnanverðum Vestfjörðum sem og annarsstaðar.“ segir Sigurður.

Sigurður segir að lokum að það væri gott í máli sem þessu að fá ábendingu um hvað vantar og segir hann að enginn sé fullkominn. Ef eitthvað vanti þá sé best að benda á það og athuga hvort ekki sé hægt að verða við þvi að bæta úr skortinum.

Aron Ingi
aron@bb.is

DEILA