Skemmusmíði langt á veg komin á Patreksfirði

Skemman verður hin glæsilegasta og stefnt er að því að steypa gólfið í næstu viku. Mynd: Aron Ingi Guðmundsson.

Bílaverkstæðið Smur og Dekk og flutningsfyrirtækið Akstur og Köfun eru þessa dagana að reisa skemmu í Mikladal á Patreksfirði. Páll Heiðar Hauksson, eigandi Smur og Dekk segir það mjög spennandi að stækka við sig og opna nýtt verkstæði. „Við ákváðum að reisa saman skemmu sem er 720 fermetrar. Eignahluturinn skiptist jafnt á milli okkar og ég mun flytja verkstæðið mitt uppeftir þegar þetta er klárt. Ég verð með þrjú bil þarna en verð með verkstæðið í tveimur bilum, fer í 230 fermetrum úr 70 fermetrum sem ég er með núna.“ segir Páll Heiðar.

Hann segir óljóst með verklok á skemmusmíðinni en vonast eftir að geta flutt starfsemina í byrjun næsta vetrar. „Við vinnum þetta eins og við getum og fáum menn sem komast í það og það skiptið. Við erum að fara að steypa gólfplötuna í næstu viku. Ætli við flytjum ekki einhvern tímann eftir nagladekkjaverktíðina, eftir miðjan október eða í byrjun nóvember. Þá kemur oft rólegur tími og þá væri það kannski hægt, samkvæmt villtustu draumum.

Páll Heiðar segir þetta vera gamlan draum að rætast. „Ég ætlaði að byggja árið 2010, þá stóð til að byggja hér á Vatneyri, en fengum ekki að ráða því nógu mikið sjálfir hvernig þetta snéri og hvernig við vildum hafa þetta. En þarna upp frá þar sem við fengum lóð þá ráðum við þessu sjálfir. Þetta er 3000 fermetra lóð og þar er nóg útipláss en hér á eyrinni er ekkert útipláss, þar áttu ekkert útfyrir vegg. Það verður spennandi að opna nýtt verkstæði og innrétta og gera þetta allt sjálfur.“ segir Páll Heiðar að lokum.

Aron Ingi
aron@bb.is

DEILA