Sambahátíð á Listasafni Samúels í Selárdal

Í sumar hafa sjálfboðaliðar verið að störfum í listasafninu. Mynd: Aðsend.

Laugardaginn 11. ágúst verður haldin sambahátíð í Selárdal í safni Samúels Jónssonar. Tilefnið er 20 ár eru síðan safnið var sett á fót. Ólafur J. Engilbertsson, einn aðstandandi safnsins segir að nú hylli undir að hægt verði bráðum að opna hús Samúels, bæði aðstöðuhús og líka íbúðir. „Það hafa verið sjálfboðaliðar í sumar að störfum í safninu, bæði að undirbúa og að setja ný gólf í listasafnhúsið og kirkjuna og nýja girðingu í kring. Á þessari sambahátíð munu koma fram meðal annars Teitur Magnússon og Hallveig Rúnarsdóttir sópransöngkona og það verður fleira í boði, leiðsagnir og leikir fyrir börn.“ segir Ólafur.

Ólafur segir að aðsóknin í sumar hefur verið dræmari en oft áður. „Það hafa að jafnaði komið um það bil 5.000 manns yfir sumarið og vonum við að það fari að rætast úr þessu í ár, búið að vera með rólegra móti. Vegurinn hefur verið mjög slæmur og það verður vonandi tekið til hendinni við að lagfæra hann þar sem þetta er jú fjölsóttur staður. Félagið um listasafn Samúels vill koma á framfæri þökkum til þeirra sem hafa aðstoðað við verkefnið. Sérstaklega er varðar söfnunarátakinu í vor sem gerði það kleift að unnt var að ráðast í lokahnykkinn í að koma húsinu í gagnið. Það verður hægt að hafa fjölbreytta aðstöðu þarna, meðal annars kaffihús og minjagripasölu. Vonast er til að hægt verði að opna þá aðstöðu næstkomandi sumar.“ segir Ólafur að lokum.

Aron Ingi
aron@bb.is

DEILA