Safnadagur að Hnjóti síðastliðinn sunnudag

Vel var mætt á Safnadaginn að Hnjóti síðastliðinn sunnudag og skemmtu gestir sér vel. Mynd: Safnið að Hnjóti.

Síðastliðinn sunnudag var Safnadagur haldinn hátíðlegur að Hnjóti. Dagurinn gekk mjög vel fyrir sig að sögn Ingu Hlín Valdimarsdóttir, safnstjóra. Hún segir að mikið af fólki hafi mætt þrátt fyrir að þetta hafi verið á sama tíma og úrslitaleikurinn í HM. „Það hefur verið hefðin að halda Safnadaginn aðra helgina í júlí á hverju ári og þá er alltaf messa í Sauðlauksdal og svo messukaffi í safninu að gömlum sið. Svo höfum við yfirleitt alltaf fengið einhvern fyrirlesara eða verið með fræðandi viðburð. Það var Guðlaug Guðmunda Ingibjörg Bergsveinsdóttir, þjóðfræðingur úr Reykhólasveitinni sem hélt fyrirlestur um rannsókn sína á viðhorfi til forystufés. Það tengist sýningunni um Tálknaféð sem er hjá okkur núna þannig að þetta er svona sauðfjártengt sumar hjá okkur.“ segir Inga Hlín í samtali við BB.

Inga Hlín segir sumarið hafi gengið vel að Hnjóti og safnið er vel sótt. Hún segir að nú sé verið að skipuleggja næstu viðburði og munu þeir verða auglýstir á Facebook síðu safnsins. Til að mynda verður í byrjun ágúst mánaðar annar fyrirlestur í safninu, en þá kemur Albína Hulda Pálsdóttir, fornleifafræðingur heldur erindi og verður það auglýst betur síðar.

Aron Ingi
aron@bb.is

DEILA