Nýr sveitarstjóri í Strandabyggð

Þorgeir Pálsson. Mynd: Jón Jónsson.

Á fundi sveitarstjórnar Strandabyggðar þriðjudaginn 17. júlí var samþykkt samhljóða að ráða Þorgeir Pálsson sem nýjan sveitarstjóra Strandabyggðar. Þorgeir tekur við starfinu af Andreu K. Jónsdóttur sem hefur verið sveitarstjóri Strandabyggðar undanfarin sex ár. Alls bárust 14 umsóknir um starfið.

Þorgeir er fæddur á Hólmavík árið 1963 og á ættir að rekja á Strandir og til Suðureyrar við Tálknafjörð. Sambýliskona hans er Hrafnhildur Skúladóttir frá Þingeyri og eiga þau samtals fjögur börn. Þorgeir hefur starfað ýmislegt í gegnum tíðina, meðal annars verið framkvæmdastjóri eigin fyrirtækis sem heitir Thorp ehf. Hann hefur einnig kennt alþjóðaviðskipti og verkefnastjórnun við Háskólann í Reykjavík og Háskólann á Akureyri og enn fremur kennt við Sjávarútvegsháskóla Sameinuðu þjóðanna.

Þorgeir er með BSc-próf í sjávarútvegshagfræði og diplómu í alþjóðaviðskiptum frá háskólum í Noregi og MBA-próf í rekstrarhagfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Hann hefur lengi starfað við margvísleg ráðgjafastörf tengd stefnumótun og stjórnun, einnig við ráðgjafastörf tengd ferðaþjónustu og við sjávarútvegsverkefni hér á landi og erlendis. Þorgeir var framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða 2008-2010. Hann stýrði einnig umfangsmiklu stefnumótunarverkefni sveitarstjórnar Strandabyggðar á árunum 2015-2016.

Þorgeir stefnir nú á að flytja til Hólmavíkur og er gert ráð fyrir því að hann hefji störf 1. ágúst.

Dagrún
dagrun@bb.is

DEILA