Mjúkur mjöður í Dokkunni

Hákon Hermannsson, bruggmeistari Dokkunnar.

Blaðamaður BB tók hús á Hákoni Hermannssyni framkvæmdastjóra Dokkunnar sem framleiðir bjór við Sundahöfnina á Ísafirði. Markhópar Dokkunnar eru til dæmis farþegar skemmtiferðaskipa, hópar í hvataferðum, vinnustaðahópar og steggja/gæsa partý. Í dag framleiðir Dokkan fjórar tegundir af bjór til sölu af krana. Tvær tegundir hafa fengið nöfn með tilvísun í örnefni og fossa á Vestfjörðum. Einkennisbjórinn heitir Dokkan, en það nafn er dregið af skipakví sem staðsett var í Neðsta, og svæðið ævinlega kallað Dokkan.

Kort af Neðsta kaupstað á Ísafirði.

Dokkan er Amerikan Pale Ale (APA) bjór og telst meðal beiskur og var þróaður í Bandaríkjunum í kringum 1980. Bjórinn er bragðmikil með góða fyllingu og eitt glas kallar á annað. Dynjandi sem dregur nafn sitt af þekktum fossi í Ísafjarðarbæ er Indian Pale Ale (IPA) og var þróaður fyrir hermenn Englendinga sem staðsettir voru á Indlandi. Bjórinn er milli dökkur og bragðmikill en ferskur. Léttleiki fæst úr humlum en venjulega dugir eitt glas og kallar ekki á annað. Boðið er upp á tvær aðrar tegundir sem enn hafa ekki fengið nafn; annar er bragðlítill og ljós, svokallaður „blond“ bjór, en hinn er bragðmikill svokallaður Amber Ale og líkist hinum vinsæla Classic bjór.

Dynjandi er hinn dæmigerði vestfirski bjór, kraftmikill með karakter og fer mikið fyrir honum. Það er viðeigandi að slíkur bjór dragi nafn sitt af þekktum fossi sem staðsettur er á miðjum fjórðungnum er mestur fossa á Vestfjörðum. Margir vilja kalla fossinn Fjallfoss en samkvæmt Háskólavefnum er það rangnefni. Enn mikilvægari heimild fyrir nafninu kemur frá afa Hákonar, Gunnari Péturssyni sem segir að réttnefnið á fossunum öllum sé Dynjandi en Fjallfoss sé aðeins einn af sex fossum og er sá efsti. Síðan koma Hundafoss, Strokkur, Göngumannafoss, Hrísvaðsfoss og Sjóarafoss í þeirri röð. Eflaust geta þessi nöfn komið til greina þegar nýjar tegundir verða kynntar til sögunnar hjá Dokkunni.

Ein skemmtileg hugmynd hefur komið upp en útgerð eins skemmtiferðaskips sem kemur reglulega til Ísafjarðar hefur lýst yfir áhuga á að selja Dokkubjór um borð. Þá verður fyrirtækið komið í útflutning á bjór sem er saga til næsta bæjar. Blaðamaður vill hvetja fyrirtæki og hópa til að heimsækja Dokkuna, renna niður ljúfum drykk og fræðast um framleiðslu á vestfirskum bjór.

Gunnar

DEILA