Listamannahús á Gilsfjarðarbrekku

Um 50 manns komu á Gilsfjarðarbrekku þegar listamannadvölin var opnuð. Mynd: Dagrún og Jón Jónsson.

Núna í júlí opnaði listamannadvöl að Gilsfjarðarbrekku í Reykhólahreppi. Það eru listamaðurinn Martin Cox, bóndinn Bergsveinn Reynisson, þjóðfræðingurinn Guðlaug Guðmunda Ingibjörg Bergsveinsdóttir og sjómaðurinn Víðir Björnsson sem eiga heiðurinn af verkefninu, en þau hlutu meðal annars styrk til framkvæmda frá Uppbyggingasjóði Vestfjarða. Hugmyndin er að listamenn geti sótt um að dvelja á Brekku í einhvern tíma og unnið þar að list sinni. Blaðamaður BB tók tal af Martin og Guðlaugu (sem er alltaf kölluð Gulla) og forvitnaðist um þetta spennandi verkefni.

Hvernig varð hugmyndin til um að breyta Gilsfjarðarbrekku í listamannahús? Martin segist hafa fengið áhuga á verkefninu eftir að hafa sjálfur varið tíma í listamannahúsi á Norðausturlandi í febrúar 2016. Það var mjög góð reynsla sem hann langaði að fleiri fengju að upplifa. Því byrjaði hann árið 2017 að leita að húsnæði fyrir verkefnið fyrir utan Los Angeles en fann ekkert sem hentaði nógu vel. Hann mundi þá eftir því þegar hann fór að Brekku meðan á listamannadvöl hans sjálfs stóð á Íslandi.

Martin ávarpar gestina. Mynd: Dagrún og Jón Jónsson.

Martin segir húsið fullkomið í verkefnið, á fallegum stað sem þögnin einkenni, einu hljóðin komi frá fuglum, vindi, fossum og kindum. Húsið sé fullkomið fyrir listamenn, sérstaklega úr stórborgum, sem vilja flýja truflun og tengjast náttúrunni og listinni á nýjan leik. Gulla bætir við að foreldrar hennar hafi átt þetta hús í 27 ár og um tíma leigt það til ferða- og veiðimanna. Það hafði þó minnkað á síðustu árum og húsið þarfnaðist endurbóta: “Þau vildu ekki selja húsið, en voru heldur ekki alveg að nenna að sinna ferðafólki sem kom í stuttan tíma og fór svo. Það að fá listafólk sem myndi dvelja í einhvern tíma hljómaði mun betur. Pabbi er búinn að nefna oftar en einu sinni, að það sé ekki séns á að við verðum rík á þessu, en þetta gæti orðið einstaklega skemmtilegt, bæði fyrir okkur og samfélagið.“

Móðir Gullu, Signý Magnfríður Jónsdóttir, lést 10. nóvember síðastliðinn úr krabbameini og sá því þetta verkefni ekki verða að veruleika. „Hún átti að vera verkefnisstjóri og ég ætlaði bara að vera hjálparhellan. Mamma var sérlega listrænn handverkssnillingur, fullfær um að gera upp hús ef þess þurfti og átti ekki í neinum erfiðleikum með samskipti á ensku,“ segir Gulla.

„Undirbúningur hefur gengið upp og ofan. Upphaflega planið var að taka gamla fjósið í gegn og gera stúdíó þar, en það var of stórt verkefni fyrir okkur í ár. Því var gripið í að hafa vinnuaðstöðuna á efri hæð hússins, þar sem er eitt stórt rými. Martin kom til landsins um 13. júní, hann er búinn að vera aðal driffjöðurin í þessu síðasta mánuðinn. Hann sá til þess að öll neðri hæðin (fyrir utan tvö geymsluherbergi og þvottahús) væri máluð upp á nýtt, ásamt hinni stórkostlegu Jamie og honum Rémí,“ segir Gulla, en hún bætir við að enn eigi eftir að fínpússa nokkur smáatriði.

Opnunin var skemmtileg og það mættu um 50 manns. Aðstandendur sögðu frá vinnunni við verkefnið, buðu upp á vöfflur og leyfðu fólki að skoða húsið. Þá var líka klippt á borða og húsið formlega opnað. Fyrsti listamaðurinn kemur 26. júlí og heitir Joan Perlman. Það stendur til að húsið verði opið fram í október og opni svo aftur í apríl 2019. „Við vorum öll í skýjunum með þetta!“ segir Gulla að lokum.

Dagrún Ósk
dagrun@bb.is

DEILA