Ísafjarðarbær lagar sumarróló á Suðureyri

Nú loksins ætlar Ísafjarðarbær að fara í framkvæmdir við sumarróló á Suðureyri. Íbúar Suðureyrar hafa beðið lengi eftir að eitthvað yrði gert og óska þess, sem von er, að rólóinn verði prýði fyrir bæinn en ekki blettur eins og hann er að verða. Blaðamaður BB hitti nokkrar konur á róló í gærkvöld og þær sögðu að það væri mikil skömm hvernig leikvöllurinn væri orðinn. Bærinn hefði aldrei gert neitt en það sem hefði verið gert, það væri kvenfélaginu að þakka. Þær hefðu fyllt á sandkassann fyrir fimm árum og málað það sem mála þurfti. En nú væri allt að drabbast niður, fólk færi með hunda sína inn í garðinn og kettir hafa óheftan aðgang að sandinum. Einnig vantaði mottur undir rólurnar en þar er bara möl og ekki ótítt að börn meiði sig þar. Konurnar voru argar, enda margir íbúar þorpanna í kringum Ísafjörð orðnir langþreyttir á að bíða eftir úrbótum.

En nú er von að rætist úr. Samkvæmt teikningunni sem Ísafjarðarbær hefur birt mun verða byggður hóll í einu horninu sem rennibrautin verður felld inn í, það verður malbikaður göngustígur milli leiktækjanna, settar grasmottur undir rólur og vegasölt og sjávarmöl þar í kring og svo auðvitað berjarunnar og blómstrandi, sem er ákaflega móðins núna á leikvöllum hér fyrir vestan. Áætlað er að verkið taki þrjú ár en í sumar verða sett niður leiktæki og öryggishellur undir þau, fyllt í lóðina, þökulagt og malbikað. Litla trillan sem er svo vinsæl á leikvellinum verður áfram en hana smíðaði Hólmberg Guðbjartsson, eða Beggi Ara árið 1964. Það verður gaman að sjá stakkaskiptin sem róló mun taka en á meðfylgjandi myndum má sjá dapurt ástand hans í dag og teikninguna af nýja vellinum.

Sæbjörg
bb@bb.is