Hvað skyldi nú leynast í þessu húsi?

Um daginn sagði BB frá því að dularfull hús væru að dúkka upp á túnum á Flateyri. Enginn vissi á hverju gekk, eða næstum því allavega og málið varð furðulegra með hverjum deginum því ýmis skilti og blóm fóru að birtast við húsið. Þar stóð til að mynda: „Hats for sail,“ sem rímaði svo ótrúlega vel við fyrirsögnina á hurðinni þar sem stóð: „This will keep you worm.“ Engir voru þó maðkarnir eða skúturnar í skúrnum heldur einungis húfur. Húfur til sölu og húfur til að halda á fólki hita. Prjónaðar húfur í öllum dýrindis litum og með áletrunum sem gætu fengið hvaða kaldlynda kall sem er til að hrisstast af hlátri. Húsið, er nefnilega sölubás. Svona sjálfsölubás eins og hægt er að versla fisk í á Tálknafirði og fá sultu frá við selastoppistöðina í Skötufirði. Nema á Flateyri eru seldar húfur.

Það er hún Hanna Jónsdóttir hönnuður sem stendur á bak við uppátækið. Hún er alin upp í Suðursveit og ekki ókunnug fámenni líku Flateyri, þar sem hún er var ein í bekk í skólanum sínum þangað til hún fór í skóla á Hornafirði 12 ára gömul. Það bjó hún hjá föðursystur sinni þar til skólarnir í Reykjavík kölluðu. En hingað vestur hefur Hanna verið að koma síðan 2010. Fyrst á Ingjaldssand með móðursystur sinni til að planta trjám og síðar í húsið sitt á Flateyri. „Það er allt öðruvísi að koma vestur heldur en að fara í Suðursveitina. Allt önnur orka. Svo er ég líka lengra hér frá mínu nánasta umhverfi og ættingjum, það er öðruvísi,“ segir Hanna þegar blaðamaður BB leit inn til hennar í kaffi.

Húsið sem fyrri fréttin fjallaði um er eiginlega veiðikofinn hans Kidda Valda. „Ég var búin að horfa á þetta hús síðan ég kom hingað og var búin að vera að leita eftir húsi til að setja í hérna í garðinn hjá mér. Núna í maí lét ég loksins verða af því að komast að hver ætti húsið og fá það lánað. Þá var ég búin að heyra af þessum fiskisjálfssala á Tálknafirði og langaði að gera eitthvað þannig. Þetta er auðvitað mjög lítið hús en það er hægt að hugsa mjög stórt inni í því. Þetta er upprunalega veiðikofi og verður það líklega áfram nema ég nái að plata Kidda Valda með mér útí verslunareiningabransann,“ segir Hanna sposk.
Hún rekur verkefnið Ðyslextwhere með vinkonu sinni Ingrid. Saman prjóna þær og hanna húfur með stafsetningarvillum. „Húfurnar eru vel til þess fallnar að brjóta ísinn á mannamótum og flýta fyrir öllu ferli í fyrstu kynnum,“ segir Hanna útskýrandi. „Þú getur rétt ímyndað þér hvort þessi skúr hafi ekki virkað þannig líka. Ég hef komist á tal við fleiri núna á einni viku sem búa hér á Flateyri heldur en seinustu fimm ár. Það er kærkomið og dýrmætt í þessari veröld þar sem einmanaleikinn er að gera út af við fólk.“

Þær Ingrid eru nánast í daglegum samskiptum til að skiptast á hugmyndum og athugasemdum varðandi prjón og húfur. Þær lærðu saman í Hollandi, vöruhönnun í Eindhoven og sumarið eftir fyrsta skólaárið sjanghæaði Hanna vinkonu sína með sér í vinnu á Hótel Höfn í Hornafirði. „Mér fannst Ingrid líklegust í það verkefni,“ segir sveitakonan Hanna, „svona dugleg stelpa frá Noregi.“ Þær fengu fljótlega fyrirspurn frá vini um hvort þær gætu prjónað húfu með letri, því vinurinn hafði mikinn áhuga á grafískri hönnun. Letrið átti ekki að skipta máli svo stöllurnar ákváðu að prjóna Húsasmiðjublaðið á höfuðfatið. Fljótlega kom þó í ljós að munstrið var of stórt svo þær ákváðu að sleppa hinum og þessum stöfum. „Og okkur fannst þetta svo skemmtilegt að við ákváðum að leika okkur meira með þetta. Og svo af því að við vorum komnar með þetta hús þá var ennþá skemmtilegra að setja texta utan á það og skilti, til dæmis stendur inni í húsinu: „Takk fyrir konuna,“ segir Hanna og hlær dálítið.

Hanna og Ingrid fengu það verkefni í fyrra að prjóna húfur á kokkalandsliðin sem tóku þátt í stórri matarhátíð í Noregi. Þá reyndu þær að láta áletranirnar á húfunum vísa til hópanna og hún segir að kokkarnir hafi verið mjög ánægðir með þetta, vegna þess hve mikla athygli fólkið hlaut vegna höfuðfatanna og hversu mikið það auðveldaði byrjun á öllum samtölum. „Og hérna á Flateyri hefur verið mjög skemmtilegt að hafa svona hús. Þegar ég var til dæmis að mála skiltin þá var fólk að koma aftan að mér eða litlir krakkar stóðu hjá og hvísluðust á um stafsetningarvillurnar sem þeir sáu. Þannig að þetta virkar mjög vel til að brjóta ísinn. Það er líka gaman að blanda þessu við þá sterku hefð sem er í handverki og virðinguna sem við berum fyrir henni. Hraðinn í nútímasamfélaginu er svo mikill og hann er stútfullur af allskonar villum og flestum finnst til dæmis allt í lagi að það slæðist inn villur þegar við sendum skilaboð, ef það er hægt að skilja textann. En ég á mjög erfitt með það ef það er villa í munstrinu eða prjóninu,“ segir hönnuðurinn knái og þessar andstæður eru áhugaverðar. Litlar stafsetningarvillur sem skiljast þó vel en merking orðanna breytist, saman með fullkomnu handverki.

Hanna Jónsdóttir Flateyri Hanna Jónsdóttir Flateyri

Salan í litla húsinu hennar Hönnu hefur gengið vel. Hver sem er getur gengið inn og verslað, annað hvort með því að hafa samband við hana eða taka innlexnótu sem liggja við hlið handverksins.

Sæbjörg

bb@bb.is

DEILA