Hafró prófar nýtt veiðarfæri í Ísafjarðardjúpi

Nýtt veiðarfæri fyrir ljósátu. Mynd: Ísabella Ósk.

EMI og Hafró hafa farið af stað með tilraunaverkefni sem snýr að nýju veiðarfæri, fyrsta sinnar tegundar í heiminum. Veiðarfærið er notað til þess að veiða ljósátu.

Skipið Rostnesvag sem lá við Ísafjarðarhöfn, er norskur togari sem búið er að breyta allverulega svo hann henti vel í verkið. Áhöfnin, ásamt verkefnastjóra og starfsmanni Hafró, ætla að dvelja í fiskveiðilögsögu Íslands, m.a. í Ísafjarðardjúpi, í sumar og fram á haust til þess að prófa tækið.

Daníel Guðbjartsson, verkefnisstjóri tilraunaverkefnisins sagði í samtali við BB að tækið sé einstakt á marga vegu og virkar þannig að það laðar að sér ljósátu með ljósi og sogar hana síðan upp.

Vaxandi markaður er fyrir ljósátuolíu sem fæðubótarefni en hún er rík af omega-3 og hefur þess vegna dregið að sér athygli innan heilsugeirans. Úr ljósátunni er aðalllega unnið dýra- og fiskafóður og lýsi. Einnig er ljósátan notuð sem beita við sportveiðar ásamt því að vera nýtt í lyfjaiðnaðinum.

Norskur uppfinningamaður hannaði veiðarfærið. Tilraunin leiðir svo í ljós hvort veiðarfærið muni skila tilsettum árangri en það hefur virkað að einhverju leyti hingað til.
Gaman er að geta þess að Ísfirðingurinn Sólveig Guðmunda Guðmundsdóttir, sem hefur lokið MS frá lyfjafræðideild Háskóla Íslands tókst í MS rannsókn sinni í fyrra að þróa aðferð til þess að einangra lífvirk efni úr Norður Atlantshafs ljósátunni, greina helstu fitusýrur, þar á meðal omega-3 fitusýrurnar EPA og DHA og staðfesta tilvist andoxunarefnisins astaxanthins, en þessi efni hafa verið vinsæl í heilsuvörur vegna virkni sinnar.

Ísabella
isabellaosk22@gmail.com

DEILA