Gylfi segir að mannekla, fjárhagur og ímynd stofnunarinnar séu helstu áskoranirnar

Gylfi Ólafsson

Gylfi Ólafsson var nú á dögunum skipaður forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða. Gylfi er spenntur fyrir starfinu og segist tilbúinn að takast á við þær áskoranir sem fyrir eru.
Gylfi er 35 ára og fluttist til Ísafjarðar 5 ára og bjó þar meira og minna í 20 ár. Hann hefur fengist við ýmis störf og má þar nefna starf í ferðaþjónustu hjá Vesturferðum, fréttamaður hjá RÚV, sjálfstætt starfandi ráðgjafi í heilsuhagfræði, stundakennari við HÍ, auk þess sem hann stofnaði og rak nýsköpunarfyrirtækið Víur í Bolungarvík árin 2013 – 2016. Síðast starfaði Gylfi sem aðstoðarmaður Benedikts Jóhannessonar fjármála- og efnahagsráðherra árið 2017. Gaman er að geta þess að Gylfi var einnig í sigurliði Ísafjarðarbæjar í Útsvari á þessu ári.

Gylfi lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Ísafirði á sínum tíma, lauk síðan B.Ed.-gráðu sem grunnskólakennari frá Háskólanum á Akureyri og M.Sc. í hagfræði frá Stokkhólmsháskóla. Hann stundar nú doktorsnám í heilsuhagfræði við Karolinska í Stokkhólmi og stefnir á að útskrifast í haust. ,,Heilsuhagfræði fjallar um það sem snýr að heilsu og heilbrigðiskerfi annars vegar og fjármagni hins vegar og hvernig það á samleið. Heilsuhagfræðingar fást meðal annars við að finna út hversu mikið er réttlætanlegt er að borga fyrir lyf, hvenær lyf eru orðin dýr og hvenær ekki. Einnig skoða þeir hvernig rekstri á heilbrigðisstofnunum er háttað. Markmiðið með heilsuhagfræðinni er að gera sem mest gagn með þá peninga sem eru til umráða, en þeir eru yfirleitt ekki svo miklir. Gagnsemi í því samhengi snýst þá yfirleitt um að lengja og bæta líf fólks,’’ segir Gylfi.

Aðspurður um hvernig nýja starfið leggst í hann og hvort það séu einhverjar áskoranir segir hann: ,,Það leggst mjög vel í mig. Ég er búinn að heyra í starfsfólki síðustu daga og það eru allir í góðu skapi og vilja gera þessa góðu stofnun enn þá betri. Áskoranir snúast að því að fjárhagurinn er mjög knappur. Einnig eru margar stöður ómannaðar. Ég myndi segja að ímynd stofnunarinnar endurspeglist dálítið í því, en ekki endilega hversu góð hún er. Það verður áskorun að breyta því,’’ segir Gylfi.

Gylfi ætlar sér að flytja vestur á Ísafjörð ásamt Tinnu Ólafsdóttur eiginkonu sinni og tveimur börnum um mánaðamótin júlí, ágúst.

Ísabella
isabellaosk22@gmail.com

DEILA