Grænmetið hjá Gróanda hefur ekki kvartað undan kuldanum

Góð molta gefur dýrindis uppskeru. Mynd: Hildur Dagbjört.

Hildur Dagbjört Arnardóttir stofnaði ræktunarfélagið Gróanda á Ísafirði árið 2016. Gróandi stendur fyrir ræktun lífræns grænmetis, ávaxta, berja og kryddplantna. Félagsmenn rækta sitt eigið grænmeti fyrir ofan Hlíðarvegsblokkirnar á Ísafirði. Hún segir að það gangi vel, þó allt grænmetið sé ekki komið niður enn, en það sé að hafast.

Meðlimir í Gróanda eru fjölmargir og Hildur Dagbjört segir: ,,Það er engin skylda að mæta og vinna þó maður sé félagsmaður í Gróanda. En það er að sjálfsögðu mjög gaman og gefandi að tengjast náttúrunni og matnum sínum á þennan hátt. Auk þess að við getum framleitt meira af mat eftir því sem fleiri hendur taka þátt í vinnunni. Þess vegna velja sumir félagsmenn og aðrir bæjarbúar að mæta annað slagið. Sumir mæta oft, aðrir sjaldan, en ég er yfirleitt ekki ein ef ég auglýsi að það sé hægt að mæta. Það eru almennt vinnudagar á mánudögum og þá getur fólk gengið að því vísu en annars erum við líka með messenger hóp þar sem ég læt vita hvar og hvenær er hægt að mæta.’’ Næstu tvo mánudaga verða þó ekki vinnudagar, en þann 30. júlí geta allir mætt sem vilja.

Hildur Dagbjört segir að kuldatíðin hafi ekki aftrað þeim og grænmetið hafi ekki kvartað. ,,En starfsmaðurinn hefur stundum kvartað aðeins undan köldum fingrum, en það er ekkert sem góðir hanskar laga ekki.’’

Á mánudögum eru vinnudagar eins og hefur komið fram, en þá getur hver sem er mætt, hvort sem hann er félagsmaður eða ekki. Fólki er einnig velkomið að kíkja við og skoða, hvort sem er á mánudegi eða öðrum degi. Hildi langar að efla félagsskapinn og halda fleiri félagslega viðburði, en hún kemst ekki yfir að skipuleggja það meðan svona mikið er að gera í að framleiða smáplöntur, gera beð og planta. Ef einhver hefur áhuga á að hjálpa til við að halda utan um félagslega viðburði í Gróanda væri það yndislegt, en hingað til hefur hópurinn haldið ýmisskonar viðburði tengda vinnu árstíðanna; vorverkadaga, sumargleði, haustuppskeru, fjölskyldugrill og kvöldbál. Auk þess viðburð þar sem þau smíðuðu sér borð og bekki til að gera mögulegt að hafa það meira félagslegt uppi á ræktunarsvæðinu. ,,Það væri hægt að gera svo margt skemmtilegt saman,’’ segir Hildur.

Hildur getur bent á fjölmörg ráð sem fólk getur notað til þess að vera umhverfisvænni. Til dæmis að vera alltaf með 1-2 fjölnota poka á sér, helst fjölnota bolla líka. Einnig er hægt að veita því athygli að kaupa mat eftir fremsta megni sem er án umbúða og reyna að taka eftir því hve miklar umbúðir eru utan um vörurnar. Velja ávexti og grænmeti sem eru í lausu og hafa með taupoka ef okkur finnst leiðinlegt að þeir rúlli um á afgreiðsluborðinu.

Ísabella
isabellaosk22@gmail.com

DEILA