Ekki öll nótt úti enn með skólalóðina á Flateyri

Bráðum heyrir þessi leiðinda lóð við Grunnskóla Önundarfjarðar sögunni til.

Á bæjarráðsfundi Ísafjarðarbæjar í morgun kom Brynjar Þór Jónasson, sviðsstjóri umhverfis- og eignasviðs, því á framfæri að hann legði til að samið yrði við Heiðarfell ehf. um endurgerð á lóð Grunnskóla Önundarfjarðar. Áður hafði hann lagt til að tilboði frá þeim yrði hafnað, eins og sagt var frá hjá BB, en áður en Ísafjarðarbær gat hafnað tilboði þeirra formlega féll Heiðarfell frá tilboði sínu. Þessi smuga gaf tæknideild Ísafjarðarbæjar tækifæri til að endurskoða magnskrá verksins og fella niður nokkra liði.

„Það á í rauninni að framkvæma nánast allt sem fyrirhugað var að gera nema það sem snýr að gróðursetningu trjáa, runna, fjölæringa og moltugerðarhólfi og matjurtarbeði,“ sagði Fannar Þór Þorfinnsson, verkefnastjóri tæknideildar í samtali við BB. „Öll leiktækin sem fyrirhugað var að setja upp munu koma sem og kofi undir áhöld, girðingar og göngustígur, það á að tyrfa og svo framvegis,“ sagði Fannar.

Við að fella þessa liði út sem Fannar taldi upp þá lækkaði tilboð Heiðarfells um 9,039,750 milljónir. Einnig voru endurskoðuð einingaverð í frágang yfirborðs og uppsetningu tækja og heildarlækkunin hljóðaði því upp á 13,899,000 milljónir.

Verkið mun þó fara rúma milljón fram yfir þær 30 milljónir sem gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun fyrir árið 2018. En Brynjar Þór sviðsstjóri lagði til að sú upphæð yrði tekin annarsstaðar frá og bæjarráð tók vel í þá tillögu.

Á þessum sama fundi var einnig lagt fram bréf frá Hverfaráði Önundarfjarðar og foreldrafélagi Grunn- og leikskólans, þar sem beðið var um að körfuboltavöllurinn fyrir framan grunnskólann yrði malbikaður upp á nýtt. Bæjarráð tók líka vel í þá tillögu, svo ljóst er að allt er bjart á Flateyri og börnin geta brátt unað sér vel á nýjum og fallegum leikvöllum.

Sæbjörg
bb@bb.is

DEILA