Dagrún Ósk hlaut Menningarverðlaun fyrir Náttúrubarnaskólann

Frá Náttúrubarnaskólanum. Mynd: Dagrún Ósk Jónsdóttir

Dagrúnu Ósk Jónsdóttur voru veitt Menningarverðlaun Strandabyggðar við setningu Hamingjudaga á Hólmavík síðastliðinn föstudag. Dagnrún hlaut verðlaunin fyrir eftirtektarvert menningarframtak í sveitarfélaginu, en hún stofnaði Náttúrubarnaskólann.
Náttúrubarnaskólinn á Ströndum stendur fyrir námskeiðum á Sauðfjársetrinu sem byggjast á hugmyndafræðinni um náttúrutúlkun. Lögð er áhersla á fjölbreytileika og skemmtun í vali ásamt fróðleik um nánasta umhverfi. Námskeiðin eru fyrir náttúrubörn á öllum aldri, þar sem þau læra með því að sjá, snerta, gera og upplifa.

Dagrún Ósk er vel að þessum verðlaunum komin.

,,Þetta er fjórða árið sem Náttúrubarnaskólinn er starfræktur. Hann stendur fyrir námskeiðum fyrir börn þar sem þau læra um náttúruna úti í náttúrunni í gegnum leiki og með því að sjá, snerta og upplifa hlutina. Við erum með allskonar ólík þemu sem rúlla yfir sumarið til dæmis fugla-, jurta-, galdra-, víkinga- og sullþema. Það koma börn hvaðan æva af landinu í Náttúrubarnaskólann, í upphafi voru það mest börn af svæðinu en nú koma börn mun víðar að,’’ segir Dagrún.

Skólinn verður áfram starfræktur í sumar og það er enn hægt að skrá sig. ,,Það er nóg fram undan, það verða ennþá námskeið alla fimmtudaga í sumar og er enn hægt að skrá sig á þau. Svo er framundan Náttúrubarnahátíð á Ströndum sem stendur yfir helgina 13.-15. júlí og þar verður sko nóg af allskonar skemmtun og fróðleik, auðveldar gönguferðir, brúðuleikhús, veðurgaldur, náttúrubarnakviss, tónlistaratriði, Hundur í óskilum, persónur úr Latabæ koma í heimsókn, vindsmiðja, útieldunarsmiðja, brúðusmiðja, leikir, náttúrujóga, hestar, víkingar, markaður, draugasögur og margt fleira. Ég hvet alla til að kynna sér dagskrána og koma og kíkja á okkur,’’ segir Dagrún.

Dagrún segist vera ánægð með verðlaunin og þakklát viðtökunum sem Náttúrubarnaskólinn hefur fengið síðan hann var stofnaður. Hún vill einnig bæta við að náttúrubörnin séu snillingar sem eigi þessi verðlaun með henni.

Ísabella
isabellaosk22@gmail.com

DEILA