Cross fit iðkendum vantar húsnæði

Frá crossfit námskeiði á Ísafirði síðastliðið vor. Mynd: Ingibjörg Elín Magnúsdóttir

Ingibjörg Elín Magnúsdóttir, íbúi á Ísafirði og crossfit áhugamanneskja segir að húsnæðisskortur komi í veg fyrir að hægt sé að æfa crossfit á Ísafirði. Hópur fólks hefur verið að koma saman í sumar í gamla íþróttahúsinu og fjölmennt námskeið var haldið síðastliðið vor. Til stendur að halda framhaldsnámskeið í haust en lítið er um svör um hvar hópurinn getur verið til húsa.

Ingibjörg segir að það sé þreytandi til lengdar að fá engin svör hvað þetta varðar. „Síðan við fluttum heim aftur til Ísafjarðar árið 2012 hefur mér fundist leiðinlegt að geta ekki stundað þetta hér, en ég hafði stundað þetta þar sem ég bjó áður. Hef ekkert gert í þessu samt fyrr en síðasta vor þá ákváðum við nokkur saman að tala við íþróttaþjálfara og halda námskeið. Við fengum aðstöðu í gamla íþróttahúsinu hér á Ísafirði og það útskrifuðust 45 manns af námskeiðinu sem við héldum þar. Svo höfum við verið þar nokkur saman í sumar, um það bil 10 manns yfirleitt. Það sem stoppar okkur þessa stundina er húsnæðisleysi. Við höfum verið að spyrja fólk í kringum okkur um lausn en ekki fengið nein svör. Við myndum alveg skoða það að vera í reiðhöllinni í Engidal þegar hún rís. En verst er að fá engin svör og bara biðin, hún er þreytandi.“ segir Ingibjörg.

Ingibjörg segir talsverðan áhuga vera fyrir crossfit og að námskeiðið í vor hafi gengið mjög vel. „Það verða framhaldsnámskeið í haust, en óvíst hvar þau geta verið, þar sem það er starfsemi í íþróttahúsinu þar sem við vorum og svo eru ekki kjöraðstæður þar. Það er ekki upplyftingarstöng þar og ekki hægt að missa lóðin frá sér, því þá er hætta á að skemma gólfið. Við reynum að gera samt gott úr þessu og það eru allir glaðir og ánægðir og spenntir fyrir þessu, en leiðinlegt að geta ekki haldið áfram útaf húsnæðisleysi.“ segir Ingibjörg.

Hún bendir jafnframt á að það sé crossfit á Egilsstöðum, Húsavík, Sauðarkróki og spyr: „Af hverju ætti þetta ekki að ganga á Ísafirði þar sem uppbygging er til staðar og fólk mikið að hreyfa sig?“ Hún segir að lokum að fólk megi endilega hafa samband við sig ef það hefur einhverja lausn.

Aron Ingi
aron@bb.is

Athugasemdir

athugasemdir