Brjálað að gera í Einarshúsi í sumar

Arna María Arnarsdóttir vinnur í Einarshúsi.

BB leit inn í Einarshúsi í Bolungarvík til að vita hvernig sumarið gengi. Fyrir svörum varð Arna María Arnardóttir, ein af starfsmönnum staðarins en hún vann þarna líka í fyrra og var með í hugmyndavinnu um grænmetismatseðil og jafnvel hlaðborð í Einarshúsi. Ekkert varð þó úr hlaðborðinu en matseðillinn fyrir þau sem borða ekki kjöt hefur gengið vel. „Það hefur gengið rosalega vel og búið að vera brjálað að gera í allt sumar,“ segir Arna María við BB. „Það er nokkuð jafnt sem kemur af útlendingum og heimafólki sem er rosalega gaman og tilbreyting frá í fyrra en þá komu heimamenn aðeins minna.“

„Það hefur líka verið alveg brjálað í gistingu en þó aðeins minna en í fyrra og ég giska á að það sé vegna Airbnb íbúða hér í Bolungarvík en þeim hefur fjölgað. Við höfum ekki verið með grænmetishlaðborð eins og var ætlunin en erum með grænmetismatseðil sem er mjög vinsæll,“ segir Arna María brosandi. Fiskihlaðborðin eru þó alltaf vinsælust í Einarshúsi og má segja að það hafi orðið sprengja í þeim í sumar. Þá eru hópar að koma að til að smakka á fisknum en eins er heimafólk duglegt að panta í hlaðborðið.

Um Verslunarmannahelgina verður mikið um að vera í Bolungarvík í tengslum við Mýrarboltann. Þá eru böll á hverju kvöldi í Félagsheimilinu og til dæmis mun Daði úr Eurovision mæta sem og Jói Pé og Króli. Fyrir þá sem ekki þekkja til þá eru þessir síðarnefndu með lagið B.O.B.A. „Það er alveg ótrúlegt hvað eldra fólkið fílar þetta og ekki bara yngri kynslóðin,“ segir Arna María kát.

Sæbjörg
bb@bb.is

DEILA