Allt að gerast í listaheimi Flateyrar um helgina

Rannveig Jónsdóttir er 26 ára Ísfirðingur sem sýnir verk sín í Tankanum um helgina.

Straumar er ný listahátíð sem fer fram á dögunum 26.-29. júlí 2018 á Flateyri. Ungt listafólk að vestan sýnir listsköpun sína á heimaslóðum en listafólkið er ýmist menntað í myndlist, leiklist eða tónlist. Umsjónarmaður Strauma er Skúli Gautason en listamennirnir sem koma að því eru Heiðrún G. Viktorsdóttir, Hera Fjord
Maksymilian Frach, Ólöf Dómhildur í samstarfi við Ayah ALbdaiwi og Qamar Alsadoon og Rannveig Jónsdóttir.

En hvernig kom það til að halda listahátíð á Flateyri og af hverju þau? „Við sóttum öll um styrk sem ætlaður var ungu fólki ættað af Vestfjörðum til þess að fá það „heim“ að sýna listsköpun sína,“ segir Hera Fjord í samtali við BB. „Vestfjarðarstofa ákvað að stefna okkur öllum saman í samvinnuverkefni í stað þess að úthluta einstökum styrkjum og því varð úr að við fórum saman að undirbúa listahátíð þar sem við myndum síðan öll sýna okkar listsköpun. Við erum búin að vera að hittast reglulega síðan í desember, aðallega á skype af því að fólk er á mismunandi stöðum í heiminum.“

„Vinna síðustu mánaða hefur því verið undirbúningsvinna fyrir hátíðina, margir fundir og síðan erum við öll að undirbúa okkar eigin verk til sýninga á hátíðinni. Það besta við verkefnið hefur mér fundist að fá að kynnast öðru vestfirsku listafólki og fá að vinna með þeim. Flateyri varð fyrir valinu því við vildum vera í minna bæjarfélagi frekar en stærra. Hátíðin er á norður Vestfjörðum í ár en stefnan er að halda hana á suðurfjörðunum á næsta ári,“ segir Hera.

Dagskráin sem hefst á morgun, fimmtudaginn 26. júlí er gífurlega flott og áhugaverð. Hún hefst klukkan 14 í Grunnskólanum á Flateyri þar sem boðið verður upp á krakkanámskeið í myndlist leiklist og tónlist og námskeiðin standa til kl. 16.

Á föstudeginum rekur hver snilldin aðra en klukkan 17 eru Rannveig og Heiðrún með opnun í Tankanum, klukkutíma síðar spilar Maksymilian á fiðlu á sama stað, frá 19-20:00 er súpa fyrir utan Félagsheimilið þar sem Fjallkonan verður sýnd eftir súpuna. Klukkan hálf 10 mögulega stundvíslega verður svo bargisk á Vagninum fyrir þau sem hafa aldur til.

Helgin var auðvitað rétt að byrja þarna en algjör óþarfi samt að taka helgina of snemma á laugardegi. Í hádeginu eða klukkan 12 verður morgunkaffi og listamannaspjall í Oddahúsinu fyrir neðan frystihúsið og þar verður afrakstur krakkanámskeiðanna jafnframt sýndur. Elísabet Gunnarsdóttir mun stýra umræðum. Á milli klukkan 14 og 16 mun Ólöf Dómhildur sýna verk sitt á smábátahöfninni gegnt Ránargötu og á sama tíma, en samt til klukkan 17 verður opið í Tankanum. Max verður svo með tónleika í sal Ísfells sem allajafna er kallað mötuneytið í frystihúsinu en þeir standa frá klukkan 17-18. Á sunnudaginn er svo opið í Tankanum frá klukkan 15-18 og vonandi sjá sem flestir sér fært að mæta á Flateyri um helgina. Verkefnið er styrkt af Vestfjarðastofu og það er frítt inn á alla viðburði.

Sæbjörg
bb@bb.is

DEILA