Að setja mörk

Foreldranámskeiðið Að setja mörk verður haldið á Patreksfirði fimmtudaginn 26. júlí og á Ísafirði sunnudaginn 29. júlí. Á námskeiðinu verður farið yfir það hvað hegðun barna er, hvað hún þýðir og með hvaða hætti foreldrar og forráðamenn ýta undir óæskilega hegðun annars vegar og hinsvegar með hvaða hætti er hægt að hjálpa börnum að stíga út úr henni.

Nálgunin sem kennd er á námskeiðinu er byggð á ákveðinni hugmyndafræði sem kallast RIE, og oft líka nefnd sem Respect for parenting eða virðingarríkt tengslauppeldi á íslensku. Það er Kristín Maríella sem kennir námskeiðið en hún er áhugamanneskja um þessa nálgun og hefur sótt fjölda námskeiða um málið ásamt því að vera dugleg að fjalla um þessa nálgun á samfélagsmiðlum og víða á Íslandi.

Kristín segir að hún hafi kynnst nálguninni í Singapúr, en hún býr þar. „Þetta er mjög áhugaverð nálgun sem ég kynnist í Singapúr þar sem ég bý, ég kynntist þessu þegar elsta dóttir mín var 6 mánaða. Grunnurinn er að bera virðingu fyrir barni sem heilum einstaklingi. Við erum að setja okkur í spor barnsins og rauði þráðurinn er að koma fram við barn frá fyrsta degi eins og maður vill að börnin komi fram við okkur sjálf.“ segir Kristín.

Hún segir mikilvægt að upplifa sig sem leiðtoga þegar kemur að því að setja mörk. „Mesti misskilningurinn við þessa nálgun er að það megi ekki segja nei, að börn megi gera allt sem þau vilja. En það er algjör misskilningur því það eru skýr mörk sett með skilningi og samkennd á sama tíma. Viðbrögð eru leyfð, tjáning tilfinninga eru leyfð en það er ekki það sama og að leyfa hegðunina.“ segir Kristín að lokum.

Áhugasömum er bent á heimasíðu Kristínar sem er www.respectfulmom.com

Aron Ingi

aron@bb.is

DEILA