Vistvænn eldislax í sátt við villta laxinn

Eldisstöð AkvaFuture AS í Andalsvogi í sveitarfélaginu Vevelstad i Noregi

Nú fara í hönd síðustu starfsdagar Alþingis þennan veturinn og að vanda er langur listi lagafrumvarpa sem bíða lögfestingar. Þar á meðal er frumvarp með því þjála heiti: „Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi (áhættumat erfðablöndunar, úthlutun eldissvæða, stjórnvaldssektir o.fl.).“

Ég er framkvæmdastjóri AkvaFuture ehf, fyrirtækis sem hyggst hasla sér völl á Íslandi með vistvænu fiskeldi í lokuðum sjókvíum og hef þess vegna mikilla hagsmuna að gæta að vel verði vandað til lagasetningar fyrir fiskeldisiðnaðinn.

Það frumvarp sem nú er í meðferð hjá atvinnuveganefnd Alþingis byggir á skýrslu starfshóps um stefnumótun í fiskeldi en hefur tekið smávægilegum breytingum frá því drög að frumvarpinu voru lögð fram í febrúar sl. En betur má ef duga skal.

Þrátt fyrir að tilgangur frumvarpsins sé sagður að styrkja umhverfisvænt fiskeldi með því að fara að ráðum vísindamanna, vantar að gerðar séu kröfur um að fiskeldisfyrirtæki nýti sér nýjustu tækni og horfi til framtíðar hvað varðar umhverfisvænan búnað sem geri kleift að koma í veg fyrir eða hefta verulega ákomu sníkjudýra og slysasleppingar í fiskeldi í sjó, sem og að draga verulega úr neikvæðum áhrifum á lífríki sjávar. Áður en hægt er að festa áhættumat erfðablöndunar í lög, er nauðsynlegt að afla ítarlegri gagna frá íslensku fiskeldi um tíðni slysasleppinga, sem og vakta fiskveiðiár og greina þann lax (villtur – eldis) sem gengur upp í árnar.

Í Noregi kostar baráttan við laxalús fiskeldisfyrirtækin gríðarlegar fjárhæðir árlega og er næst stærsti einstaki kostnaðurinn (næst á eftir fóðurkostnaði) í rekstri fyrirtækjanna. Þá bendir norska dýralæknastofnunin (Veterinærinstituttet – www.vetinst.no) á að laxalús ógni verulega villta laxastofninum og sé jafnvel skeinuhættari en erfðablöndun milli eldislax og villts lax.

Reynslan í Noregi sýnir að helstu ástæður slysasleppinga hafa í gegnum tíðina verið tengdar meðhöndlun á eldislaxli gegn laxalús. Því má segja að villti laxinn sé í tvöfaldri hættu gagnvart laxalús.

Búnaðurinn sem AkvaDesign AS, norskt móðurfélag AkvaFuture ehf, hefur hannað og nýtir í fiskeldi sínu í Noregi tryggir lúsalaust fiskeldi og hefur tvöfalda vörn gegn slysasleppingum. Með því að taka á land úrgangsefni sem ella söfnuðust fyrir á sjávarbotni, nýtir eldistækni AkvaFuture burðarþol strandsvæða mun betur en hefðbundin eldistækni gerir.

Umhverfismálin eru mál okkar allra. Ísland þarf á blómlegu atvinnulífi að halda sem ekki gengur á auðlindir. Slíkt jafnvægi ætti að vera sameiginlegt markmið fyrirtækja og stjórnvalda. Sjálfbærni byggir á pólitískum vilja og krefst lagaramma sem er framsýnn, skapandi og leitar vistvænna leiða. Á þann hátt gæti íslenskt fiskeldi, líkt og íslensku hátæknifyrirtækin Marel og Skaginn3X, orðið brautryðjandi í vistvænu og sjálfbæru fiskeldi í heiminum.

Höfundur: Rögnvaldur Guðmundsson, framkvæmdastjóri AkvaFuture ehf

DEILA