Veitingar, skreytingar og iðandi mannlíf um allar götur Patreksfjarðar

Skemmtisigling. Mynd: Julie Gasiglia.

Sjómannadagurinn var haldinn hátíðlegur á Patreksfirði dagana 30. maí til 3. júní. Dagskrá hátíðarinnar var einkar glæsileg og vel sótt og á Sjómannadagsráð Patreksfjarðar mikinn heiður skilinn. Margir brottfluttir Patreksfirðingar lögðu leið sína vestur og skemmtu sér vel þótt veðrið hefði gjarnan mátt vera betra.

Miðviku- og fimmtudagurinn

Fyrsti viðburður hátíðarinnar fór fram á miðvikudagskvöldinu þegar börn og fullorðnir tóku þátt í Skútuhlaupinu svokallaða, sem er víðavangshlaup þar sem hlaupið er í gegnum bæinn. Á fimmtudagskvöldinu skreyttu íbúar bæjarins garði sína, götur og hús. Áður fyrr voru í Patreksfirði tveir bæir, annars vegar Geirseyri og hinsvegar Vatnseyri og ríkti talsverður rígur þar á milli. Síðar meir varð sameining undir nafninu Patreksfjörður. Einkar skemmtileg hefð ríkir í bænum en þeir sem búa Geirseyrarmegin í bænum skreyta með bláum lit og þeir sem búa Vatnseyrarmegin skreyta með rauðum lit. Leikskóla- og grunnskólabörn hjálpast svo til að skreyta almenningssvæði og setur þetta svo sannarlega litríkan og skemmtilegan brag á bæinn. Önnur skemmtileg hefð sem skapast hefur er að eftir að skreytingu líkur eru haldin götugrill víðsvegar um bæinn. Var það mál manna að grillveislur þessa árs hafi verið í styttra lagi, einfaldlega vegna kulda!

Það hefur enginn gengið svangur frá þessu grilli! Mynd: Julie Gasiglia.

Föstudagurinn

Á föstudeginum var margt á dagskrá. Sýningin “Frönsku fiskimennirnir og gamli tíminn” var sýnd á heimili Maríu Óskarsdóttur og Halldórs Árnasonar á Mýrum 8. Glæsileg sýning sem vert er að skoða, var hún opin alla helgina og verður opin í allt sumar líkt og undanfarin sumur. Hætt var við Sjómannadagsgolfmótið vegna bleytu á golfvellinum en í staðinn gæddu gestir hátíðarinnar sér á grilluðum pylsum við Friðþjófstorg áður en Leikhópurinn Lotta steig þar á stokk með sýninguna Gosa. Um kvöldið lék svo Björgvin Halldórsson öll sín þekktustu lög ásamt hljómsveit fyrir dansi í troðfullu félagsheimili bæjarins.

Íþróttaálfurinn skoppaði um Patró. Mynd: Julie Gasiglia.

Laugardagurinn

Dagskrá laugardagsins var fjölbreytt og skemmtileg. Dagurinn byrjaði á sjóstangaveiði og dorgveiðikeppni við höfnina í súld og logni. Eftir það tók ýmislegt við í Króknum, líkt og kraftakeppni, sjávargrill, Latabæjarsýning og tónleikar þar sem Jói P og Króli fengu allar kynslóðir til að dilla sér. Gestir hátíðarinnar skunduðu svo niður á höfn og fylltu skip sem sigldu um fjörðinn í svokallaðri hátíðarsiglingu. Þessi dagskrárliður er einna vinsælastur yfir helgina og er algjörlega ómissandi. Mikil stemning myndaðist líkt og iðulega með lifandi tónlist, veitingum og flugeldum. Eftir kvöldmat gengu íbúar og aðrir gestir fylktu liði í skrúðgöngu að Straumnesplaninu þar sem ýmsar furðuverur sem grunnskólakrakkar höfðu föndrað skutu upp kollinum. Þar tóku við útitónleikar og hélt fjörið áfram síðar um kvöldið í félagsheimili bæjarins þar sem hljómsveitin Made in Sveitin spilaði vel fram á sunnudagsmorgun.

Róðrarkeppni er ómissandi á sjómannadaginn. Mynd: Julie Gasiglia.

Sunnudagurinn

Hátíðinni lauk svo á sunnudeginum þar sem stærstu viðburðirnir voru Sjómannamessa sem lauk líkt og ávallt með skrúðgöngu frá kirkjunni að minnisvarða látinna sjómanna. Þar voru blóm lögð að minnisvarðanum. Eftir hádegið var annar ómissandi viðburður hátiðarinnar við höfnina þar sem keppt var í kappróðri með frjálsri aðferð. Fjögur lið tóku þátt að þessu sinni, tvö lið með yngri keppendum og tvö með fullorðnum. Keppnin var spennandi og hvatti fjölmenn áhorfendasveit liðin vel áfram. Hátíðin lauk svo líkt og yfirleitt á hinu margrómaða kaffihlaðborði kvenfélags bæjarins þar sem borðin svignuðu undan kökum og kræsingum.

 

Aron Ingi

DEILA