Vegagerðin telur útfærslu norsku ráðgjafana dýrari en kemur fram í skýrslu þeirra

Áskorunin fjallar um að leið Þ.H. verði heimil og framkvæmdir geti hafist.

Vegagerðin telur að leið um utanverðan Þorskafjörð, leið R sem er útfærsla á leið A sé líklega dýrari kostur en reiknað er með í skýrslu Multiconsult um leiðaval í vegagerð um Gufudalssveit sem kynnt var á Reykhólum þann 27.júní. Leiðin kalli á frekari rannsóknir, endurbyggingu á Reykhólasveitarvegi, hugsanlega nýtt umhverfismat, sé lengri sem nemur 4–7 km fyrir byggðir á sunnan- og norðanverðum Vestfjörðum og kalli á frekari hönnun. Vegagerðin gæti ekki verið tilbúin til framkvæmda fyrr en að 1-2 árum loknum. Skýrsla Multiconsult, sem er unnin fyrir Reykhólahrepp, nefnir leið R sem vænlegan kost, leið sem er svipuð og A veglínan sem unnið hefur verið með í mati á umhverfisáhrifum, þ.e.a.s. þverun Þorskafjarðar utarlega.

Vegagerðin bendir á í athugasemdum við skýrsluna að stytting leiða skipti máli en tillaga Multiconsult þýðir lengri leið til þéttbýlisstaða á sunnanverðum Vestfjörðum sem og norðanverðum, styttri jarðgöng á D-leið sem liggja hærra í landi og skapa þ.a.l. önnur vandamál. Mjög líklegt verður að telja að sú gerð brúar sem Multiconsult leggur til yfir Þorskafjörð sé mun dýrari lausn á lengdarmetra en tillögur Vegagerðarinnar um brúargerð gera ráð fyrir, þá þarf að gera frekari rannsóknir á þessu vegstæði yfir Þorskafjörð bæði með tilliti til vatnsskipta og vegna smíði brúar. Rannsóknir munu tefja vegalagningu á þessu svæði. Vegagerðin telur að byggja þurfi upp Reykhólasveitarveg í tengslum við leið R sem hugsanlega kallar á nýtt umhverfismat og lengri undirbúningstíma þess vegna. Hönnun nýrrar veglínu tekur einnig nokkurn tíma. Reikna má með að Vegagerðin gæti ekki hafið framkvæmdir fyrr en 1-2 árum síðar en mögulegt er miðað við Þ-H leið og núverandi stöðu þess máls.

Vegagerðin reiknar með að taka þennan kost til frekari skoðunar óski Reykhólahreppur eftir því. Frumathugun á þeim valkosti gæti í fyrsta lagi legið fyrir síðla hausts 2018.

Athugasemdir við skýrslu Multiconsult/Reykhólahrepps
Skýrslan gerir vel grein fyrir þeim valkostum sem liggja fyrir varðandi legu Vestfjarðavegar um Gufudalssveit. Það eru þó engir nýjar leiðir sem koma þarna fram segir Vegagerðin. Leið um Reykhóla sem nefnd er R-leið í skýrslu Multiconsult hét leið A í matsáætlun Vegagerðarinnar frá 2015 og var hafnað á grundvelli kostnaðar, umferðaröryggis og lengingar akstursvegalengda miðað við aðrar leiðir. Í álitsgerð Vegagerðarinnar frá 1976 var þverun Þorskafjarðar einnig til skoðunar. Í þeirri greinargerð kemur m.a. fram að ferðatími frá Patreksfirði til Reykjavíkur var 12 klst. og ferðatími frá Króksfjarðarnesi til Reykjavíkur 7 klst. Verulegar framfarir hafa því náðst undanfarna áratugi.

Vegagerðin hefur einungis haft nokkra daga til að skoða drög að skýrslu Multiconsult sem kynnt var opinberlega 27. júní á Reykhólum. Vegagerðin hefur fundað með skýrsluhöfundum og komið á framfæri nokkrum sjónarmiðum og athugasemdum við skýrsluna. Kostnaðaráætlanir Vegagerðinnar sem kynntar hafa verið Reykhólahreppi gera ráð fyrir að heildarkostnaður við leið Þ-H sé 7,3 milljarðar kr. en heildarkostnaður við leið D2 sé 13,3 milljarðar kr.

Kostnaðaráætlanir Vegagerðarinnar byggja á sambærilegum verkefnum sem eru í gangi eða nýlokið. Jarðgangakostnaður miðar við Norðfjarðargöng sem opnuð voru í lok síðasta árs ásamt áætluðum framkvæmdakostnaði við Dýrafjarðargöng sem eru í fullum gangi. Kostnaður við brýr á leiðum Þ-H og D2 miðar við byggingu sambærilegra brúa í nýlegum fjarðaþverunum.

Verulega auknar kröfur eru í reglugerðum og stöðlum varðandi öryggi í jarðgöngum sem skýrir hækkun á kostnaði við jarðgöng frá því sem kynnt er í matsskýrslu árið 2015.
Multiconsult hefur útskýrt að túlka eigi kostnaðarmat þeirra sem hlutfallslegan milli valkosta en ekki endilega raunkostnað.

Þær athugasemdir sem Vegagerðin hefur komið á framfæri eru eftirfarandi:
1. Vegagerðin er ósammála því mati Multiconsult að stytting vegalengda skipti ekki máli enda hefur auknar akstursvegalengdir í för með sér kostnað fyrir vegfarendur.
2. Multiconsult leggur til styttri jarðgöng á leið D2. Sá valkostur hefur verið til skoðunar hjá Vegagerðinni áður. Það hefur verið þróunin hérlendis að hafa gangamunna lægra yfir sjó en áður var og er þá einkum horft til þess að jarðgöngin eru hönnuð til a.m.k. 100 ára. Með lengri göngum eykst stofnkostnaður en það er talið koma til baka með ódýrari vetrarþjónustu á vegum að göngum, meira umferðaröryggi með lágum fyllingum og litlum halla utan gangamunna.
3. Í kostnaðarmati Multiconsult er gert ráð fyrir að einingaverð fyrir brúargerð sé jafnhár hvort sem byggt er frá landi á fyllingum innar í fjörðunum eða ein stærri brú sem byggð er af sjó. Vegagerðin telur það óraunhæft en er ekki búin að leggja tölulegt mat á það.
4. Þó svo að vatnsskipti séu tryggð í 800 m langri brú yfir Þorskafjörð má búast við töluverðu rofi í sjávarbotni vegna aukins straumhraða. Ítarlegra rannsókna er þörf á botngerð til að hægt sé að fullyrða um grundunaraðstæður og það er því mat Vegagerðarinnar að mun meiri óvissa sé um kostnað við leið R. Byggir það áreynslu Vegagerðarinnar af öðrum fjarðaþverunum, s.s. í Kolgrafarfirði, Borgarfirði og Dýrafirði.
5. Það er mat Vegagerðarinnar að Reykhólasveitarvegur uppfylli ekki kröfur til stofnvega og sé ekki hæfur fyrir þá umferðaraukningu sem gert er ráð fyrir nema með töluverðri endurbyggingu og lagfæringu. Hann er tiltölulega mjór, á honum eru krappar beygjur og hæðir, lagfæra þarf hliðarsvæði og setja upp vegrið til að auka umferðaröryggi og vegurinn er alveg í ósamræmi við þann veg sem byggður hefur verið upp frá Skálanesi yfir í Vatnsfjörð og þann veg sem ráðgerður er um Dynjandisheiði og vegagerð í tengslum við Dýrafjarðargöng. Það verði því að gera ráð fyrir kostnaði við slíkar endurbætur í öllum samanburði.

Undirbúningur að framkvæmdum
Undirbúningur að framkvæmdum við vegagerð á Vestfjarðavegi milli Bjarkalundar og Skálaness hefur staðið lengi. Matsáætlun var lögð fram í september 2015 og að loknu ítarlegu samráðsferli og rannsóknum var endanleg matsskýrsla lögð fram í febrúar 2017 og gaf Skipulagsstofnun út álit sitt í mars 2017. Frá þeim tíma hefur Vegagerðin unnið í samstarfi við Reykhólahrepp að breytingu á aðalskipulagi Reykhólahrepps.
Reykhólahreppur auglýsti í desember 2017 tillögu að breytingum á aðalskipulagi hreppsins. Þar voru tveir valkostir kynntir, leið Þ-H í gegnum Teigsskóg og leið D2 með jarðgöngum undir Hjallaháls. Leitað var umsagna varðandi þá valkosti og hefur Vegagerðin verið í nánu samráði við sveitarstjórn Reykhólahrepps í því ferli.

Vegagerðin gerði formlegar athugasemdir við aðalskipulagstillögunar ásamt því að svara sérstökum spurningum sveitarstjórnarinnar varðandi leiðaval.
Vegagerðin fundaði með sveitarstjórn Reykhólahrepps þann 8. febrúar og kynnti sína afstöðu ásamt því að skýra út svör sín við spurningum sveitarstjórnarinnar. Sveitarstjórn kynnti svo í apríl 2018 að ákveðið hafi verið að velja tillögu Þ-H og auglýsa breytingar á aðalskipulagi í samræmi við það. Skipulagsstofnun hefur farið yfir skipulagstillöguna og er Reykahólahreppi heimilt að auglýsa aðalskipulagsbreytinguna.

Margir valkostir hafa verið skoðaðir í gegnum tíðina varðandi val á legu Vestfjarðavegar um Gufudalssveit. Í mati á umhverfisáhrifum voru 5 valkostir metnir til umhverfisáhrifa. Fjallað var um 2 valkosti til viðbótar í tillögu að matsáætlun en var hafnað. Þar með talið leið A sem byggist á því að endurbyggja Reykhólaveg og leggja veg frá Reykhólum að Þorskafirði og yfir Þorskafjörð. Þetta er sama leið og kynnt er sem leið R í skýrslu Multiconsult fyrir Reykhólahrepp. Þessari leið var hafnað á sínum tíma vegna kostnaðar og lengdar en hún var um 7 km lengri heldur en aðrar leiðir sem til skoðunar voru.

Það er mat Vegagerðarinnar að Reykhólasveitarvegur uppfylli ekki kröfur til stofnvega og sé ekki hæfur fyrir slíka umferðaraukningu nema með töluverðri endurbyggingu og lagfæringu. Á honum eru krappar beygjur og hæðir, lagfæra þarf hliðarsvæði og setja upp vegrið til að auka umferðaröryggi og er í ósamræmi við þann veg sem byggður hefur verið upp frá Skálanesi yfir í Vatnsfjörð og þann veg sem ráðgerður er um Dynjandisheiði og vegagerð í tengslum við Dýrafjarðargöng.

Leið A hefur ákveðna kosti varðandi byggðasjónarmið þar sem Reykhólahreppur tengist betur til vesturs. Í dag er vegalengd milli Reykhóla og Patreksfjarðar 192 km en mun styttast um 40-45 km verði Þorskafjörður þveraður samkvæmt leið A samanborið við leið Þ-H, sem getur stuðlað að auknum samskiptum milli sveitarfélaga. Á móti kemur að vegalengd frá Reykjavík og Vesturlandi til Patreksfjarðar og Ísafjarðar verður um 7 km lengri. Í skýrslu Multiconsult og Reykhólahrepps kemur fram að hægt sé að stytta leiðina eitthvað framhjá Bjarkalundi með því að breyta vegamótum Vestfjarðavegar og Reykhólavegar milli Skáldsstaða og Berufjarðar og verður þá aukin vegalengd um 4 km samanborið við leiðir Þ-H eða D2.

Ef af verður er töluverðra rannsókna þörf vegna brúargerðar á leið A yfir Þorskafjörð. Ekki liggja fyrir kannanir á efni í sjávarbotni, einnig þarf að kanna hversu þykk setlögin eru með bergmálsmælingum eða öðrum aðferðum. Þá þarf að gera efnisrannsóknir á þeim námum sem notaðar yrðu við leið A. Það er mat Vegagerðarinnar að nauðsynlegt sé að kanna matsskyldu þessara breytinga frá fyrra umhverfismati ásamt því að gera breytingar á aðalskipulagi Reykhólahrepps. Samráðsferli þarf að eiga sér stað við hagsmunaaðila. Það er reynsla Vegagerðarinnar að þetta ferli taki tíma og má gera ráð fyrir að það sé að lágmarki 6-9 mánuðir en líklegra heilt ár.

Hægt er að vinna að rannsóknum og frumdrögum hönnunar samhliða skipulagsvinnunni. Að því loknu tekur við verkhönnun og undirbúningur framkvæmda að því gefnu að nauðsynlegar fjárveitingar til framkvæmda liggi fyrir.

Óski Reykhólahreppur eftir því að leið A verði skoðuð aftur reiknar Vegagerðin með að taka þann valkost til skoðunar. Gert er ráð fyrir að frumathugun á þeim valkosti gæti í fyrsta lagi legið fyrir síðla hausts 2018 þar sem farið yrði yfir umhverfisáhrif, metinn kostnaður og farið yfir mögulegar breytingar á Reykhólasveitarvegi með tilliti til umferðaröryggis. Þannig fæst samanburður við þær 2 leiðir sem verið hafa til umfjöllunar í tengslum við breytingu á aðalskipulagi Reykhólahrepps, þ.e.a.s. leið Þ-H um Teigsskóg og leið D2 með jarðgöngum undir Hjallaháls. Í kjölfarið yrði tekin ákvörðun um hvort að Vegagerðin breyti sinni afstöðu þannig að Vestfjarðavegur verði lagður samkvæmt leið A í stað Þ-H.

Breytingar á veglínu Þ-H
Verulegar breytingar hafa verið gerðar á tillögum Vegagerðarinnar um leið í gegnum Teigsskóg frá upphaflegum hugmyndum. Gerð er góð grein fyrir þessum breytingum í greinargerð Vegagerðarinnar vegna endurupptöku mats á umhverfisáhrifum frá því í janúar 2015. Helstu atriði sem má nefna eru:
– Planlega, hæð og breidd vegar
– Þveranir fjarða
– Umferðaröryggi
– Efnistaka
Fyrri leið í gegnum Teigsskóg (leið B) hafði verið í um 6 km í skóglendi en núverandi leið Þ-H er einungis um 2,15 km í skóglendi. Breytingar voru gerðar á hæð vegarins yfir landi til að draga úr sjónrænum áhrifum og minnka rask vegna vegagerðar. Einnig hafði verið gert ráð fyrir efnistöku til vegagerðar við veglínu í Teigsskógi en vegna breyttrar legu og lækkunar vegarins þarf nú rúmlega 300 þús.m3 minna efni til vegagerðar sem veldur minna raski.

Í greinargerðinni frá janúar 2015 kemur fram að stærð skógarþekju í Teigsskógi hafi verið metin sem um 667 ha. Fyrri hugmyndir (leið B) gerðu ráð fyrir að um rúmlega 50 ha (7,5% af skógarþekju) myndu raskast. Leið Þ-H eins og hún er kynnt í matsskýrslu Vegagerðarinnar í febrúar 2017 skerðir flatarmál Teigsskógar um tæpa 19 ha (tæp 2,8% af skógarþekju).

Upphaflegar tillögur miðuðu við mun styttri brýr en nú er gert ráð fyrir og byggði það á sambærilegum forsendum og aðrar fjarðaþveranir á landinu. Þær forsendur gerðu ráð fyrir fullum vatnsskiptum. Brú á Djúpafjörð var áður um 182 m löng en nú er gert ráð fyrir 300 m langri brú. Brú á Gufufjörð var áður um 120 m löng en er nú 130 m löng. Brú á Þorskafjörð var um 182 m löng en er nú 260 m löng. Þetta leiðir til mun minni straumhraða í gegnum brýrnar.

Vegagerðin hefur því í kjölfar endurupptöku málsmeðferðarinnar komið verulega til móts við sjónarmið umhverfisverndar með því að minnka verulega áhrif á ósnortið land í Teigsskógi svo og lengt brýr umtalsvert til að minnka neikvæð áhrif á lífríki í þeim fjörðum sem farið er um. Til viðbótar skoðaði Vegagerðin hvort að frekari lenging brúa gæti minnkað umhverfisáhrif frekar frá því sem kynnt er í mati á umhverfisáhrifum og var niðurstaðan sú að nú er ráðgert að byggja viðbótarbrú í Djúpafirði til að minnka líkur á botnrofi í firðinum enn frekar.

Sæbjörg

bb@bb.is

DEILA