Veðrið sett strik í reikninginn í strandveiðum á Patreksfirði

Strandveiðabátar á Patreksfirði. Mynd: Julie Gasiglia.

Strandveiðar hafa gengið frekar treglega á Patreksfirði það sem af er samkvæmt Hirti Sigurðssyni hafnarverði Patrekshafnar. Ríkjandi vindátt hefur gert mönnum erfitt fyrir en útlitið varðandi veðurspá er þó ágætt á næstunni.

Hjörtur segir að veðrið í byrjun vikunnar hafi verið með skásta móti. „Veðrið í dag (11. júní) er aðeins skárra en síðustu daga og langflestir nú á sjó, ég held að það hafi aldrei verið fleiri á sjó á þessu ári eins og eru í dag. Það hefur verið frekar slöpp veiði hingað til. Þeir hafa þó verið að ná skammti, en það hefur tekið lengri tíma. Það er aðallega þessi ríkjandi vindátt sem hefur gert þeim erfitt fyrir.“

Hann segir að það séu mun færri bátar sem sæki veiðarnar nú. Ástæðan sé fyrst og fremst lágt verð og svo spili fleiri þættir þarna inní. „Þeir fá lengri tíma núna en oft áður, fleiri daga og er það til bóta. Þótt það komi bræludagar þá geta þeir geta sleppt þeim dögum. Það er góð breyting en sem áður var, þá þurftu menn að fara út í hvaða veðri sem var.“

Hvað veðráttuna varðar þá segir Hjörtur að þetta líti betur út á næstunni. „Já spáin er ágæt á næstunni og því er þetta vonandi bjart framundan.“ segir hann að lokum í samtali við BB.

Aron Ingi
aron@bb.is

DEILA