Stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Hornstrandir verður kynnt þann 21. júní

Hornbjarg.

Undanfarið hafa fulltrúar Umhverfisstofnar, landeigenda og sveitarfélags unnið að gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir friðlandið á Hornströndum. Samstarfshópurinn hefur lagt fram tillögu til kynningar. Þar kemur meðal annars fram að árið 1975 voru Hornstrandir, Aðalvík, Rekavík bak Látur og Fljótavík ásamt hluta Jökulfjarða friðlýst sem friðland. Friðlandið á Hornströndum er 581 km2 að stærð og er staðsett á norðanverðum Vestfjörðum. Eitt af aðal einkennum friðlandsins er hve afskekkt það er og lítið mótað af umsvifum og ágangi manna. Innan svæðisins eru að finna mikilfengleg fuglabjörg, einstakt gróðurfar og menningarminjar sem standa sem minnisvarðar um tíðaranda og búsetuhætti sem liðnir eru undir lok. Þá er þéttleiki heimskautarefsins eitt af einkennum friðlandsins á Hornströndum.

Markmið friðlýsingarinnar á Hornströndum er að vernda lífríki, jarðminjar og menningarminjar svæðisins. Markmið með gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir friðlandið er að leggja fram stefnu um verndun og hvernig viðhalda megi verndargildi þess þannig að sem mest sátt ríki um. Sérstaða svæðisins er mikil og með áætluninni er stefnt að því að standa vörð um og efla jákvæða ímynd svæðisins.

Í tillögunni koma fram áætlanir fyrir hvert ár þar sem árið 2018 á til dæmis að flytja tjaldstæði á Sæbóli austur fyrir skólann, vinna að áætlun um aðgerðir gegn framgangi ágengra tegunda, laga tjaldsvæði og kamra, vinna að áætlun um skiltaþörf, uppfæra upplýsingarit landeigenda með tilliti til umgengni við refi, stöðu landvörslu, meðhöndlun úrgangs og notkun fjórhjóla, svo fátt eitt sé nefnt.

Þá kemur fram varðandi kvikmyndun að á síðustu árum hafi áhugi aukist mikið á því að kvikmynda og ljósmynda á svæðinu. Einnig hafa komið fyrirspurnir frá fyrirtækjum sem vilja mynda lífríkið. Í drögunum segir: „Í því skyni að stýra álagi á svæðið til framtíðar er talið nauðsynlegt að hvers konar kvikmyndataka og ljósmyndun sem getur haft áhrif á náttúru og lífríki svæðisins og upplifun gesta sé háð leyfi Umhverfisstofnunar sbr. sérregla nr. 2 í kafla 4. Með tilkomu reglu sem sett er fram varðandi kvikmyndatöku og ljósmyndun þarf leyfi Umhverfisstofnunar og er stofnuninni heimilt að setja skilyrði þar um (sjá kafla 3.6.2. og reglu nr. 2 í kafla 4).“

Stjórnunar- og verndaráætlun fyrir friðlandið á Hornströndum er ætlað að vera stefnumótandi skjal, unnið í samvinnu við sveitarfélag og landeigendur og er hugsað sem stjórntæki til að móta framtíðarsýn svæðisins. Markmiðið með gerð hennar er að leggja fram stefnu um verndun friðlandsins og hvernig viðhalda skuli verndargildi svæðisins. Þeir sem komu að gerð skjalsins voru fjölmargir og áætlunin gildir til ársins 2027. Þá skal meta árangur verndarráðstafana og endurskoða og uppfæra aðgerðaáætlun.

Fimmtudaginn 21. júní klukkan 20:30 mun Umhverfisstofnun kynna áætlunina og ábendingarferlið í Háskólasetri Vestfjarða, en frestur til að skila inn athugasemdum og ábendingum er til 17. júlí.

Sæbjörg
bb@bb.is

DEILA