Sækir í krefjandi störf

Gísli Halldór Halldórsson.

Á laugardaginn 9. júní síðastliðinn var síðasti starfsdagur Gísla Halldórs Halldórssonar sem bæjarstjóra í Ísafjarðarbæ. Margir sjá eftir honum með söknuði þó aðrir bíði spenntir eftir nýjum meirihluta. Þegar BB heyrði í Gísla var hann bara slakur að fara yfir möguleika framtíðarinnar en að hans sögn er þetta fyrsti dagurinn síðan 1991 sem hann er á milli starfa. Hann væri vanari því að vera í vinnunni eða jafnvel í tveimur störfum.

En hvað finnst Gísla Halldóri standa upp úr eftir síðustu fjögur ár sem bæjarstjóri? „Þegar ég horfi á það í dag þá finnst mér standa upp úr hversu fólk hefur líst yfir mikilli ánægju með mín störf. Bæði starfsfólk og bæjarbúar. Ég og mitt starfsfólk hefur fengið góða dóma og það hefur verið mikil framþróun. Það muna það kannski ekki allir kjósendur að leiðin hefur legið stöðugt niður á við frá því fyrir aldamót en nú er það búið að snúast við. En einn af erlendu doktorsnemunum í Háskólasetrinu var að benda mér á það að við hefðum kannski ekki verið nógu dugleg við að koma því á framfæri sem við vorum að gera. Ég og samstarfsfólkið höfum lagt áherslu á að gera hlutina sjálf og það hefur virkilega tekist. Og á meðan við getum farið sátt að sofa og erum sátt við sjálf okkur þá má liggja á milli hluta hversu vel fólk tekur eftir því sem hefur verið gert.“

„Ég er mjög stoltur af því að hafa náð góðu sambandi við starfsfólkið mitt og að við höfum náð að gera hlutverkalýsingu fyrir teymið. Það er alltaf hægt að ná sterkari teymisheild en mér finnst teymisvinnan hafa gengið vonum framar. Við höfum náð að græða ýmis sár sem voru í fyrirtækinu og það var það sem mig langaði mest að gera. Og finnst það hafa tekist ágætlega. Það sem ég er stoltastur af fyrir hönd Ísafjarðarbæjar er hvað við höfum náð gríðarlegum framförum í skólakerfinu. Eðli málsins samkvæmt er það mest í Grunnskóla Ísafjarðar, þar sem hann er stærstur en líka í leikskólunum. Það er auðvitað allt of mikið álag á starfsfólk þar ennþá en bærinn má vera virkilega stoltur af því hvert við erum komin. Og ef vel verður haldið áfram þá verður þetta einn valdur að vaxandi íbúafjölgun í sveitarfélaginu.“

En hvað skyldi taka við hjá Gísla nú þegar hann er búinn með morgunkaffið sitt á mánudegi? „Nú er leikmannaglugginn opinn í bæjarstjóramálum svo það þarf að skoða það, sem og önnur sambærileg fyrirtæki,“ svarar Gísli Halldór. En mér finnst sérstaklega gaman að vinna með fólki og í stjórnun og sæki í krefjandi störf af því tagi. Hugsanlega þarf ég að flytja þar sem það eru ekki mörg störf af þessu tagi hér á svæðinu. Ég myndi sækja um starf sem hefði starfsmannaumfang og ég vil krefjandi starf líkt og bæjarstjórastarfið hér var. Það fylgja því auðvitað blendnar tilfinningar, ég hef alltaf verið hér og hugsað um þetta samfélag, fyrir utan þessi fjögur ár sem ég var í burtu í háskóla. Ég er líka tiltölulega nýbúinn að gera upp húsið og á fjölskyldu á Flateyri. En ég á líka fjölskyldu í Reykjavík og þetta þýðir bara að það eru alltaf ný tækifæri sem bíða. Og alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt,“ segir Gísli að lokum og BB óskar honum farsældar í komandi verkefnum.

Sæbjörg
sfg@bb.is

DEILA