Reynir Trausta gefur út bókina Þorpið sem svaf

Reyni Traustason þekkja margir. Hann er Flateyringur, bjó þar í 37 ár, en hugmyndin að smásagnasafninu, Þorpið sem svaf, kom til hans árið 1995. Þá skrifaði hann nokkrar sögur á Flateyri og byggði þær á reynslu sinni sem þorpsbúi og sjómaður. Eftir það fór safnið í dvala, vegna starfa hans í fjölmiðlum, en fyrir tveimur vikum var ritið loksins tilbúið og gefið út.

Í bókinni eru tólf smásögur um fólk í þorpum. „Flest er byggt á raunverulegum atburðum en auðvitað skáldað eftir þörfum,“ sagði Reynir í samtali við BB. „Ein sagan fjallar til dæmis um togara sem árum saman hafði verið með sama lit. Drukkinn útgerðarstjóri lét mála skipið í öðrum lit og dallurinn fiskaði ekki eftir breytinguna. Presturinn í þorpinu hafði samband við Guð til að reyna að aflétta bölvuninni. Margir þekkja þetta tilfelli en ég gengst ekki við neinu.“

Reynir segir að þema bókarinnar sér þorpið Kvóteyri, sem geti allt eins verið Flateyri, Þingeyri, Ísafjörður eða Norðurfjörður á Ströndum. „Ein sagan fjallar um sveitarstjórn sem er afar hrifin af milljarðamæringi í útlöndum og leyfir honum að sökkva heiðinni ofan byggðarinnar. Önnur saga fjallar um einstakling sem selur allan kvóta byggðarlagsins,“ segir Reynir.

Reynir Torfason, fyrrum bæjarlistamaður á Ísafirði, myndskreytir sögur nafna síns. „Það var heiður og ánægja að vinna með honum,“ segir Traustason. Þorpið sem svaf er gefið út af nýju bókaforlagi Stundarinnar, þar sem Reynir Traustason starfar. Bókaútgáfan nefnist Austurstræti og fyrirhugað er að gefa út bækur eftir fleiri höfunda á næstunni.

Sæbjörg

sabjorg@gmail.com

DEILA