Opnun sýningarinnar Tálknaféð

Frá sýningunni að Hnjóti.

Sýningin Tálknaféð eða “Feral Attraction“ eftir Bryndísi Snæbjörnsdóttir og Mark Wilson opnar á Minjasafni Egils Ólafssonar að Hnjóti, þann 16. júní klukkan 16:00. Verkefni Bryndísar og Mark sýnir hvernig þau einbeita sér að Lambeyrarhálsi og fjallinu Tálkna milli Patreksfjarðar og Tálknafjarðar með það markmið að skoða sérstaklega ákveðinn hóp kinda. Þessar kindur tóku sér bólfestu á fjallinu í þrjá áratugi en var að lokum smalað saman og slátrað í lok ársins 2009 og byrjun ársins 2010. Spurningar um tilverurétt dýra og hvað liggur á bak við lög og reglur sem settar eru fyrir mismunandi dýrategundir er leiðandi í rannsókn þeirra.

Með sýningunni á Minjasafninu að Hnjóti vilja þau meðal annars skapa umræðu um flokkunarkerfi mannsins þar sem sum dýr teljast villt, önnur búfénaður og enn önnur gæludýr. Í framhaldi af því vilja þau skoða tengsl milli þessara dýra og þess umhverfis sem þau velja sér svo og hvernig samskipti okkar mannanna við þessi dýr mótast af þessari hugmyndafræði.

Opnun sýningarinnar stendur yfir frá klukkan 16:00-18:00 og hvetjum við áhugasama til að gera sér ferð að Hnjóti og skoða þessa áhugaverðu sýningu.

Aron Ingi
aron@bb.is

DEILA