Nýr meirihluti í Vesturbyggð hefur ekki rætt við Ásthildi

Ásthildur Sturludóttir.

Ásthildur Sturludóttir, fráfarandi bæjarstjóri í Vesturbyggð, sagði í samtali við BB að nýr meirihluti bæjarstjórnar hafi hvorki rætt við sig í aðdraganda kosninga né eftir þær. Hún hefur áhuga á að starfa áfram sem bæjarstjóri ef nýr meirihluti leitar eftir því. „Ég sagði það í kveðjupistli mínum að ég hefði haft hug á því að starfa áfram sem bæjarstjóri en staðan er sú að núverandi meirihluti kaus að tala ekki við mig. Þau gáfu það samt til kynna í kosningabaráttunni að það væri allt opið hjá þeim. Verkefnin eru þannig, að ég tel að það sé mikilvægt að fólk vinni saman og það er auðvitað skynsamlegast. Sú þekking og reynsla sem er fyrir hendi er mjög mikilvæg og dýrmæt og það tekur langan tíma að byggja það upp,“ segir Ásthildur.

Athygli vakti að í samtali við BB fyrr í vikunni sagði Iða Marsibil Jónsdóttir, nýkosinn forseti bæjarstjórnar Vesturbyggðar, að enginn hefði sýnt bæjarstjórastöðunni áhuga. Hún sagði að öllum væri frjálst að sækja um stöðuna þegar hún yrði auglýst, þar með talin fráfarandi bæjarstjóri.

Á fyrsta bæjarstjórnarfundi nýs meirihluta kom fram bókun frá minnihluta um að reynt yrði að ná samkomulagi um áframhaldandi störf fráfarandi bæjarstjóra áður en staðan verður auglýst. Ásthildur segir að hún muni ekki sækja um starf bæjarstjóra komi til þess að starfið verði auglýst. „Nei ég mun ekki sækja um, ef þú talar ekki við sitjandi bæjarstjóra þá viltu ekki semja við hann.“ Ásthildur bætti að lokum að nýr meirihluti hafi ekki tekið afstöðu til bókunar minnihlutans.

Aron
aron@bb.is

DEILA