Ný lög um lögheimili og aðsetur

Verslunin í Norðurfirði. Ágreiningur um lögheimilisskráningu kom upp í Árneshreppi stuttu fyrir kosningar í vor. Myndin tengist fréttinni ekki.

Markmið nýrra laga um lögheimili og aðsetur, sem samþykkt voru á Alþingi 11. júní sl., er að stuðla að réttri skráningu lögheimilis og aðseturs á hverjum tíma og tryggja réttaröryggi í meðferð ágreiningsmála er varða skráningu lögheimilis. Lögin taka gildi 1. janúar næstkomandi.

Réttarbætur nýju laganna eru fjölmargar. Hjónum verður til dæmis heimilt að skrá lögheimili hvort á sínum staðnum, þrátt fyrir meginregluna um að hjón skuli eiga sama lögheimili. Þá er kveðið á um auknar eftirlitsheimildir Þjóðskrár Íslands með lögheimilisskráningu og gerð sú krafa til þinglýsts eiganda fasteignar að hann hlutist til um að skráning lögheimilis einstaklinga sem hafa fasta búsetu í húsnæði hans sé rétt. Einnig má nefna að kveðið er á um dulið lögheimili í lögunum og skráningu fólks í íbúðir en hvort tveggja tekur gildi 1. janúar 2020.

Lögin hafa nú verið birt í Stjórnartíðindum og munu, sem fyrr segir, taka gildi 1. janúar næstkomandi. Í vinnslu er reglugerð um lögheimili og aðsetur sem mun taka gildi á sama tíma og lögin.

Sæbjörg

bb@bb.is

DEILA