Nú er lag að skoða fossana upp af Ófeigsfirði

Hvalá. Mynd: Sólveig Sigurðardóttir.

Eitt af helstu vandamálum tengdum fyrirhugaðri Hvalárvirkjun er hversu fáir hafa komið í Ófeigs- og Eyvindarfjörð og gengið upp að fossunum sem skipta hundruðum. Margir þessara fossa hafa hingað til verið algjörlega óþekktir og ósnortnir, sem sést best á því að langflestir þeirra eru nafnlausir. Síðan eru aðrir sem hlotið hafa meiri frægð, a.m.k. tímabundið, eins og Rjúkandifoss, Hvalárfossar, fossaröðin í Eyvindarfirði og sérstaklega hinn 70 m hái Drynjandi sem með sanni má kalla Platínufoss Íslands. Sú staðreynd að svo fáir Vestfirðingar hafi séð þessar náttúruperlur er miður og gerir tækisfærisinnuðum virkjanafyrirtækjum í erlendri eigu auðveldara með að sölsa undir sig svæðið – fyrirtæki sem hafa fjárhagslegan gróða að markmiði en ekki hagsmuni Vestfirðinga. Flestir sem taka afstöðu til Hvalárvirkjunar horfa því ekki með eigin augum til þeirra náttúruperlna sem þeir eru að fórna með virkjuninni- framkvæmd sem ekki aðeins þurrkar upp fjölda stórkostlegra fossa, heldur klýfur í tvennt stærstu ósnortnu víðerni Vestfjarða – víðerni sem eru miklu meira virði ósnortin en virkjuð.

Það gladdi mig því ósegjanlega að sjá í vikunni myndir á Facebook af ferð nokkurra Ísfirðinga að Hvalárfossi og Drynjanda um síðustu helgi. Ég fékk leyfi til að birta tvær þeirra. Eins og sést á myndunum var afar mikið í fossunum vegna leysinga, sem gerði þá enn tilkomumeiri en ella. Og það í byrjun júní sem Vesturverk heldur fram að sé alls ekki sá eini mánuður ársins sem hægt er að njóta þeirra.

Drynjandi. Mynd: Sólveig Sigurðardóttir.

Áhugaleysi ráðamanna á Vestfjörðum að kynna náttúrufegurð þessa einstaka svæðis er sláandi – en sjálfur upplifi ég sterkt að menn vilji hreinlega komast hjá umræðunni. Ástæðan er augljós. Ég skora því á Vestfjarðarstofu að skipuleggja rútuferð á svæðið um helgina og skoða fossana. Veðurspá er góð og fossarnir óvenju vatnsmiklir. Pétur Markan gæti tekið að sér fararstjórn sem forsvarsmaður Vestfjarðarstofu, enda grunar mig að hann hafi aldrei séð fossana nema á mynd. Sama á við um Birnu Lárusdóttur, upplýsingafulltrúa Vesturverks, sem virðist byggja þekkingu sína á munnlegum heimildum hagsmunaaðila, a.m.k. hefur hún ekki svarað fyrirspurnum mínum hvort hún hafi komið að fossunum. Kristinn H. Gunnarsson, fyrrverandi alþingismaður, mætti gjarnan slást í för, enda hefur hann heldur ekki svarað ítrekuðum fyrirspurnum mínum hvort hann hafi barið fossana augum. Svipaða sögu er að segja um suma forsvarsmenn HS Orku sem hafa tjáð mér að þeir hafi séð fossana “ofan af heiðinni”, hvaðan þeir sjást ekki. Best væri auðvitað ef öll bæjarstjórn Ísafjarðar slægist í för, og þá ekki síst fulltrúar Vinstri Grænna, sem virðast hafa gleymt græna litnum, líkt og vesfirskur fulltrúi sama flokks á Alþingi. Vonandi tímabundin litblinda, enda þekkt að hægt sé að ruglast á rauðu og grænu.

Tómas Guðbjartsson

Hjartaskurðlæknir og náttúruverndarsinni

DEILA