Mikill ágangur ferðamanna við Látrabjarg

Látrabjarg. Mynd: Julie Gasiglia.

Mikill fjöldi ferðamanna leggur leið sína þessa dagana að Látrabjargi á sunnanverðum Vestfjörðum. Aðsókn ferðamanna að svæðinu hefur verið með rólegra móti það sem af er sumri og minna en síðustu ár. Er talið að veðráttan hafi eitthvað með það að gera að sögn ferðaþjóna en afar leiðinlegt veður hefur ríkt á svæðinu þar sem af er sumri og spáir meðal annars snjókomu í lok vikunnar. Einnig virðist vera hæg niðursveifla í ferðamennsku en þessa dagana hefur straumur þeirra um svæðið þó aukist. Vegurinn að Látrabjargi er í frekar slæmu ásigkomulagi eftir veturinn og þarfnast viðhalds og hafa ferðamenn lent í vandræðum þar með bíla sína. Fara þarf hægt yfir vegna holóttra vega og átta ekki allir sig á því.

Að sögn Eddu Kristínar Einarsdóttur, starfsmanns Umhverfisstofnunar á sunnanverðum Vestfjörðum, hefur stofnunin áhyggjur af Látrabjargi vegna álags frá ferðamönnum. Hún segir að mikill fjöldi fari þar um árlega, sér í lagi um neðsta svæðið en flest ferðafólk fari þó ekki lengra en um það bil 500 metra frá vitanum og snúi svo við. Álagið sé því mikið á þeim kafla og þörf sé á einhverjum aðgerðum til að verjast þessu.

Aron Ingi
aron@bb.is

DEILA