Lækkun veiðigjalda: Ekki vitræn glóra

Kristinn H. Gunnarsson

Ríkisstjórnarflokkarnir hafa komið sér saman um að lækka veiðigjaldið sem útgerðin greiðir fyrir aðganginn að fiskmiðunum við landið. Það á samkvæmt frumvarpinu að lækka veiðigjaldið um  28,5% fyrir þorsk. Veiðigjaldið er greitt samkvæmt gildandi lögum tveimur árum eftir að tekjurnar urðu til. Rökin fyrir lækkun gjaldsins er sú að afkoman í sjávarútvegi 2018 hafi versnað mikið frá 2015. Tillagan  er ekki studd neinum haldbærum rökum. Þvert á móti þá er rökrétt miðað við þekktar forsendur að breyta gjaldinu ekki.

Það er til fyrir hækkuninni

Veigamikil rök eru að sjávarútvegsfyrirtækin hafa vel flest fengið tekjurnar greiddar  sem eru tilefni þess að veiðigjaldið nú er 11 milljarðar króna og hækkar um 5-6 milljarða króna frá fyrra fiskveiðiári. Hagnaðurinn í sjávarútvegi 2015 varð 31 milljarður króna en var 15 milljarðar króna áður. Eftir að álagt veiðigjald hefur verið greitt eru 20 milljarðar króna eftir í fyrirtækjunum en voru 10 milljarðar króna árið áður. Það er aukinn gróði og staða fyrirtækjanna er að batna. Þótt 2 ár líði frá því að tekjurnar koma inn þar til kemur að greiðslu til ríkisins eru það engin rök fyrir því að veita eftir á afslátt. Vandinn er einfaldlega ekki til sem á að réttlæta afsláttinn.

Verri afkoma þýðir lægra veiðigjald

Að óbreyttu veiðigjaldsreglum mun versnandi afkoma leiða til lægra veiðgjalds sem verður greitt tveimur árum seinna. Fyrirtækin lenda ekki í neinum greiðsluerfiðleikum af þeim sökum. Hafi afkoman versnað á árinu 2016 frá 2015 mun veiðigjaldið fiskveiðiárið 2018/19 lækka sem því nemur og þannig koll af kolli. Tveggja ára tímatöfin er í sjálfu sér ekki skynsamleg en hún veldur fyrirtækjunum engum vandræðum.

Afkoman versnaði ekki 2016

Upplýsingar liggja nú fyrir árið 2016. Tekjurnar af fiskveiðum minnkuðu um 17 milljarða króna en útgjöldin minnkuðu líka eða um 10 milljarða króna. Framlegðin minnkaði því um 7 milljarða króna. En veiðigjaldið er ekki miðað við framlegðina heldur hreinan hagnað. Hækkandi gengi færði sjávarútvegsfyrirtækjum, sem mörg eru með skuldir sínar í erlendri mynt, búhnykk, sem birtist í því að kostnaðurinn af fjármagni lækkaði um 9,5 milljarða króna. Niðurstaðan sem veiðigjaldið fyrir árið 2016 tekur mið er því að hagnaðurinn hækkaði um 2,5 milljarða króna frá 2015. Afkoman batnaði frá 2015. Með öðrum orðum það er enginn vandi uppi í fiskveiðunum í heildina tekið vegna ársins 2016.

Er einhver vandi 2017?

Þá er það árið 2017. Varð einhver breyting á rekstrarskilyrðum sem kalla á opinberar aðgerðir í formi sérstakrar eftirgjafar af gjöldum til ríkisins? Það er alveg óvíst, þar sem upplýsingar eru ekki miklar. Það eina sem fyrir liggur er greinargerð frá Deloitte, gerð í mars 2018. Þar kemur fram að verð á erlendum mörkuðum hefur hækkað frá byrjun árs 2016 um 10% að meðaltali. Afurðaverð er ekki að falla erlendis heldur að styrkjast. Á móti því kemur að gengið íslensku krónunnar hækkaði um 11% á árinu 2017. Þá er nefnt að launavísitala hafi hækkað um 6,8% á árinu 2017 og olíuverð um 8,5%.

En við mat á þeim liðum þarf að skoða raunverulegar breytingar. Aflahlutir árið 2016 voru 36 milljarðar króna og lækkuðu um 5 milljarða króna frá 2015 og hafa reyndar ekki verið lægri frá 2009. Sjómenn hafa sem sé tekið á sig mikla launaskerðingu með hækkandi gengi og lækkandi fiskverði innanlands. Þá hefur olíukostnaðurinn lækkað ótrúlega mikið á síðustu árum. hann var 2016 aðeins 9 milljarðar króna en var 22,5 milljarðar króna árið 2012. Samandregið eru staðreyndir þær að olía og aflahlutir lækkuðu um 9 milljarða króna á árinu 2016 frá 2015. Lækkun þessara kostnaðarliða á árinu 2016 frá 2012 er hvorki meira né minna en 21,5 milljarðar króna.  hver er bráðavandinn í sjávarútvegi sem kvótagreifaflokkarnir þrír eru að bregðast við nú á vordögum 2018? Svar óskast. Það sem við blasir er að 10 stærstu fyrirtækin með 50% af kvótanum fá síðbúna jólagjöf frá jólasveinum ríkisstjórnarflokkanna án þess að þurfa nokkuð á henni að halda.

Kerfisvandinn leysist ekki

Veiðigjaldið er ekki vandi neins útgerðarfyrirtækis. Það hefur verið síðustu sex fiskveiðiár frá 3% til 16% af meðalleiguverði aflamarks ársins samkvæmt upplýsingum frá Fiskistofu. Vandinn sem getur komið upp liggur í verðinu sem útgerðin greiðir öðrum útgerðum fyrir veiðiréttinn. Það eru engin rök fyrir því að ríkið eigi að jafna sveiflur á verði kvóta. Þvert á móti eiga þeir sem eiga viðskiptin að bera á þeim ábyrgð. Það eru grundvöllur ábyrgs markaðshagkerfis. Vandinn liggur í því að verðákvörðun á fiski og veiðiheimildum er  ekki á markaði heldur í lokuðu einokunarkerfi þar sem verðsamráð á kostnað sjómanna og almennings er löglegt. Lækkun veiðigjaldsins leysir ekki þennan kerfisvanda. Það er úthlutunarkerfið sjálft sem er vandinn.

Með frumvarpinu skipa Vinstri grænir sér opinberlega í flokk með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki sem auðmjúkir þjónar útgerðarauðvaldsins. Þeir eru þrír eitt og hið sama. Fyrir vinstri flokk er í slíkri vegferð engin vitglóra. Flokkurinn er orðinn viðskila við eigin hugsjónir, eigin stefnu og eign kjósendur. Vinstri grænir hafa dæmt sig úr leik.

Kristinn H. Gunnarsson

 

 

 

DEILA