Júlíus Geirmundsson ÍS fær viðurkenningu fyrir sjófrystar afurðir

Áhöfnin á Júlíusi Geirmundssyni sem fékk viðurkenningu nú í júní. Mynd: HG Hnífsdal.

Við brottför frystitogarans Júlíusar Geirmundssonar ÍS 270 eftir sjómannadag veitti High Liner Foods útgerð og áhöfn viðurkenningarskjöld fyrir framleiðslu á sjófrystum þorsk- og ýsuafurðum. Frá þessu er sagt á heimasíðu Hraðfrystihússins Gunnvarar.

Með þessari: „Sérstöku viðurkenningu fyrir veittan stuðning í framleiðslu fiskafurða í Icelandic vörumerkið,“ vilja forsvarmenn High Liner Foods þakka fyrir góð og gild viðskipti.

High Liner Foods er leiðandi í framleiðslu og sölu á virðisaukandi frosnum fiskafurðum inn á markaði í Norður Ameríku. Kaupandinn gerir miklar kröfur um gæði og vottanir gagnvart umhverfi og samfélagslegri ábyrgð sem snúa meðal annars að öryggi og velferð starfsmanna. Viðurkenningin er því góð hvatning fyrir útgerð og áhöfn í sínum daglegu störfum fyrir kröfuharðan alþjóðlegan matvæla-markað.

Sæbjörg
sfg@bb.is

DEILA