Járnhjón í heimsmeistarakeppni í hálfum járnkarli

Katrín Pálsdóttir og Þorsteinn Másson stóðu sig vel í hálfum járnkarli í Slóvakíu.
Hjónin Katrín Pálsdóttir og Þorsteinn Másson gerðu sér lítið fyrir og kepptu í heimsmeistaramótinu í hálfum járnkarli sem fram fór í Slóvakíu um helgina. Á keppnisstaðnum var 34 stiga hiti, sem setti að þeirra sögn strik í reikninginn en engu að síður stóðu þau sig frábærlega og sýndu og sönnuðu að Vestfirðingar kalla ekki allt ömmu sína.
Í hálfum járnkarli synda keppendur 1,9 km, hjóla 90 km og hlaupa hálft maraþon eða 21,1 km. Í samtali við Kötu, eins og Katrín er oftast kölluð, kemur fram að hún hafi sett sér það markmið að vera í topp 10, en hún náði því og gott betur og endaði í 8. sæti. „Ég fékk boð um að taka þátt í heimsmeistarakeppninni, þar sem ég lenti í þriðja sæti í þrautinni hér á Íslandi, Challenge Iceland. Þetta er mótaröð sem haldin er um allan heim. Mig minnir að það séu 60 lönd sem taka þátt og topp 6 í hverjum aldursflokki fá boð um að taka þátt í heimsmeistaramótinu.“
Kata segir að það hafi verið ótrúleg upplifun að keppa með besta þríþrautarfólki heims. „Mér leið ótrúlega vel og fór af stað með engar væntingar. Ég hefði viljað æfa meira fyrir keppnina en var í prófum þar sem ég ákvað að skella mér í annað meistaranám. Svo var ég í kosningunum líka og það tók mikinn tíma frá æfingum. Ég hélt mig samt við mitt plan og vaknaði kl. 05 alla morgna og tók æfingu. Á helgum byrjaði ég um kl. 10 og tók 2 – 3 tíma æfingar. Ég er mjög skipulögð þannig að ég hélt mínu plani.“
En eitthvað hlýtur að þurfa að gera til að æfa sig fyrir keppni í svona miklum hita. Kata segist hafa verið stressuð yfir þessu og því ákveðið að undirbúa sig vel: „Ég æfði í ullarfötum og með hitablásarann á fullu þannig að ég fann ekki mikið fyrir þessum 34 gráðum. Það var auðvitað samt vel heitt.“
Sundið gekk vel hjá Kötu: „Það var svolítið mikill vindur, þannig að það var öldugangur á vatninu og mikill straumur. Ég þurfti að halda mér við efnið svo mig ræki ekki til hliðar. Gallinn sem ég var í var líka aðeins of stór, svo það fylltist fljótt inn í ermarnar. Mér leið smá eins og ég væri í peysu. Ég hugsaði samt bara jákvætt og reyndi að halda önduninni réttri og njóta þess að synda í 20 stiga heitu vatninu og glampandi sól.“
Kata segist hafa stokkið upp úr sundinu og beint í hjóladressið. „Mér gekk vel að hjóla og hélt 35 km meðalhraða. Ég var 2:32 að hjóla þessa 90 km. Það var mikill mótvindur á köflum og lélegar götur og brúsinn minn flaug af í einni holunni. Sem betur fer vissi ég af tveimur drykkjastöðvum, sem ég nýtti mér.“
Í hlaupinu fann Kata að hnéð var eitthvað farið að segja til sín. „Ég fann strax að það var að klikka, en vissi líka að það myndi gerast. Það kom ekkert á óvart. Ég er búin að vera að basla við svokallað „runnersknee“ í eitt ár. Ég ákvað að láta þetta ekkert trufla mig, heldur fylgja bara planinu mínu, sem var að labba ekkert, nema bara taka smá stopp á drykkjarstöðvunum. Ég ætlaði að vera undir pace-inu 6 því þá vissi ég að ég gæti verið undir 2 klst að hlaupa.“
Kata segir að hún hafi stoppað á öllum drykkjarstöðvum, fengið sér vatn, banana og orkudrykk, þar sem það var svo heitt og frekar erfitt að hlaupa. „Hlaupaleiðin var svolítið erfið, mikið á grasi og hestaslóða, mér fannst það versti kaflinn, það var varla búið að slá grasið.“ Kata hlær þegar hún rifjar þetta upp; „en ég passaði mig að hleypa engum neikvæðum hugsunum inn, reyndi bara að brosa og hafa gaman. Svo þegar ég átti 2 km eftir mundi ég eftir því að allir eiga alltaf 20%meira inni en þeir halda og gaf allt í botn. Þvílík gleði sem það var að koma í mark og verðlaunapeningurinn var svo flottur. Ég kláraði svo á tímanum 5:21 og bætti mig um 40 mínútur frá síðasta hálfa járnkarli.“
Þorsteinn segir glaður í samtali við BB að honum hafi einnig gengið vel, þó svo að honum hafi ekki gengið eins vel og járnkonunni Kötu. „Ég átti í basli með sundið, það var straumur í ánni, svo sundið tók mikið úr mér. Um leið og ég fór á hjólið leið mér betur en mér gekk vel að hjóla. Ég náði að halda 35 km meðalhraða þessa 90 km og kom ferskur af hjólinu.“
Hitinn var mikill í Slóvakíu, en Steini segir að það hafi verið það sem setti hann aðeins út af laginu. „Þegar af hjólinu var komið tók við 21 km hlaup. Hlaupið er mín sterka grein og ég ætlaði aldeilis að spretta úr spori. En 34 stiga hiti og sól slökktu hressilega í voninni um gott hlaup. Ég komst aldrei á áætlaðan hraða og fljótlega áttaði ég mig á því að þetta snérist bara um að komast í mark. Mér tókst að lokum að klára á 5 klst og 36 mínútum, sem er töluvert frá markmiðinu en ég er sáttur.“
Steini segir að hann hefði viljað vera betur æfður. „Ég hefði ekki átt að vanmeta hitann, sem ég gerði svo sannarlega en maður lærir margt af þessu, enda er þetta bara annar járnkarlinn sem ég tek þátt í.“
Af þessu að dæma er líklegt að Kata og Þorsteinn séu hvergi nærri hætt en það verður gaman að fylgjast með þessum sannkölluðu járnhjónum í næstu afrekum.
Margrét Lilja
DEILA