Íbúafundir vegna Vestfjarðavegar og Bíldudalsvegar

Dynjandisheiði. Mynd: Julie Gasiglia.

Fyrirhugað er að endurbyggja Vestfjarðaveg (60) um Dynjandisheiði, á kafla sem nær frá Hörgsnesi í Vatnsfirði, langleiðina að Mjólkárvirkjun í Borgarfirði. Einnig er fyrirhugað að endurbyggja Bíldudalsveg (63) á kafla sem nær frá Bíldudalsflugvelli á Hvassnesi að Vestfjarðavegi í Helluskarði á Dynjandisheiði. Framkvæmdin er í tveimur sveitarfélögum, Vesturbyggð og Ísafjarðarbæ. Markmið þessa er að bæta samgöngur milli sunnan- og norðanverðra Vestfjarða. Hún ásamt Dýrafjarðargöngum er lokahnykkurinn við gerð heilsárshringvegar um Vestfirði.

Vegagerðin sendi inn þann 17. maí síðastliðinn tillögu að matsáætlun um framkvæmdina og hélt kynningarfundi á Ísafirði mánudaginn 11. júní og á Patreksfirði þriðjudaginn 12. júní um málið. Fram kom á fundinum á Patreksfirði sem blaðamaður BB sat að samtals eru þessar framkvæmdir 70 km, þar af 29 km varðandi Bíldudalsveg og 41 km er varðar Vestfjarðaveg. Breyta þarf aðalskipulagi bæði í Vesturbyggð og í Ísafjarðarbæ vegna fyrirhugaðrar vinnu.

Frá kynningarfundi Vegagerðarinnar á Patreksfirði. Mynd: Aron Ingi

Einnig kom fram að á svæðinu sem þessir vegir ná yfir eru víða vinsælir ferðamannastaðir, til að mynda Flókalundur, Reykjafjörður og Dynjandi. Vegirnir munu fara 500 metra yfir sjávarhæð þar sem hæst á tveimur stöðum. Snjóþyngstu svæðin hafa verið kortlögð sem og helstu ofanflóðasvæðin. Framkvæmdir munu vera á verndarsvæðum og svæðum sem eru á náttúruminjaskrá og þarf að huga að því og öll vinna verður í samráði við Umhverfisstofnun.

Frestur til athugasemda vegna framkvæmdanna er til 15. júní 2018 og er tillagan að matsáætlun og fylgiskjöl aðgengileg á heimasíðu Vegagerðarinnar og á heimasíðu Skipulagsstofnunar. Einnig má nálgast tillöguna hjá Skipulagsstofnun. Allir geta kynnt sér tillöguna og lagt fram athugasemdir. Athugasemdir skulu vera skriflegar og berast eigi síðar en 15. júní 2018 til Skipulagsstofnunar bréfleiðis eða með tölvupósti á skipulag@skipulag.is.

Aron Ingi
aron@bb.is

DEILA