Hugmyndafundur á Hólmavík um þorpið sem íbúabyggð og ferðamannastað

Þau Agnes Jónsdóttir, Guðrún Gígja Jónsdóttir og Jón Jónsson vinna að verkefninu: Hólmavík - íbúabyggð og ferðamannastaður. Mynd: Dagrún Ósk Jónsdóttir.

Fimmtudaginn 21. júní kl. 20 verður haldinn opinn fundur í Hnyðju á Hólmavík sem snýr að verkefninu Hólmavík – íbúabyggð og ferðamannastaður. Rannsóknarsetur HÍ á Ströndum stendur fyrir verkefninu en sumarið 2018 stendur til hugmyndavinna og skýrslugerð í verkefninu en vinna að því hófst á síðasta ári. Í haust eiga síðan að liggja fyrir tillögur um margvíslegar umbætur á almannarými utanhúss á Hólmavík og miðlun sögu og fróðleiks um þorpið á áningarstöðum í því. Hugmyndavinnunni er ætlað að koma bæði Strandamönnum og ferðafólki til góða, auka lífsgæði íbúa og möguleika þeirra á að njóta útivistar.

Á spjallfundinum verða ræddar hugmyndir sem fram hafa komið í tengslum við vinnuna og verkefnið kynnt fyrir öllum þeim sem áhuga hafa. Í framhaldinu verður síðan leitað til íbúa um tillögur og hugmyndir.

Þrír starfsmenn Rannsóknaseturs HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofu vinna að verkefninu í sumar, Jón Jónsson þjóðfræðingur, Guðrún Gígja Jónsdóttir nemi í hagnýtri menningarmiðlun og Agnes Jónsdóttir þjóðfræðinemi.

Dagrún Ósk
doj5@hi.is

DEILA