Hugleiðing um rafmagnsmál

Vestfirðir. Mynd: Henry Bæringsson.

Í framhaldi af grein Birnu Lárusdóttur um dylgjur fólks sem gagnrýnir Hvalárvirkjun og áhrif hennar á rekstraröryggi raforkukerfisins á Vestfjörðum, langar mig að benda ykkur á nokkur atriði.

Ég vil byrja á því að taka fram að ég ber virðingu fyrir tilraunum Árneshreppinga til þess að halda lífi í sinni heimabyggð. Og ég tel jafnframt að virkjunin muni auðvelda aðgengi að svæðinu norðan Ófeigsfjarðar og opna nýja leið inn á austur hluta Hornstranda. Það verður auðvitað á kostnað náttúrunnar en við erum alltaf að raska náttúrunni. En ég sé ekki stað, í fljótu bragði, að virkjunin og tengingar við hana hafi þau miklu áhrif á raforkuöryggi Vestfirðinga eins og talsmenn VesturVerks vilja vera láta. Því til skýringar fylgir með loftmynd af Vestfjörðum.

A er Hvalárvirkjun, B er Nauteyri, C er Geiradalur, D er Kollafjörður, E er Mjólkárvirkjun og F er Ísafjörður. Lengdartölurnar eru bara stystu leiðir á milli staðanna, nema frá Nauteyri til Ísafjarðar. Þar taldi ég beina línu tæplega geta gengið svo ég setti gróflega niður hugsanlega lagnaleið. Ef farin er þessi leið, tel ég þetta vera gróflega legu og lengd lagnarinnar. Hún samanstæði sennilega af blöndu af loftlínu, sæstrengjum og jarðstrengjum.

Í gær birti Landsnet kerfisáætlun sína fyrir árin 2018-2017. Það eina þar sem snýr að Vestfjörðum er styrking flutnings milli norður og suður svæðis Vestfjarða, með sæstreng yfir Arnarfjörð. Landsnet er rekið á viðskiptalegum grunni og ákvörðun um að byggja tengivirki á Nauteyri helgast af því. Það er, ef nægur flutningur verður um virkið svo það borgi fjárfestinguna þá er hægt að réttlæta uppsetningu þess. Ef farið verður í frekari virkjanir við Djúp styrkist enn frekar grundvöllur fyrir það. Í dag er Landsnet með tengivirki í rekstri í Geiradal, þaðan liggur Mjólkárlína um Kollafjörð. Eins og sjá má á kortinu eru 40 km á milli Nauteyrar og í Kollafjarðarbotn, og 53 km á milli Nauteyrar og í Geiradal. Ég hef ekki séð frá öðrum en forsvarsmönnum VesturVerks þessar hugmyndir um tengivirki í Kollafirði. Það má vel vera að farið hafi fram einhver greining á þeim kosti að reisa tengivirki þar en mér þætti ekki ótrúlegt að Landsnet leggði frekar lengri línu/streng og færi þessa kílómetra í viðbót og beint í Geiradal. Fyrir því eru nokkrar ástæður og nú bið ég fólk að hafa í huga þær forsendur sem Landsnet vinnur eftir, það eru viðskiptalegar. Tengivirki kostar peninga, bæði í uppsetningu og rekstri. Setja þyrfti upp fjögurra útganga virki, þrír útgangar og einn fyrir stöðvarnotkkun. Hugsanlega mætti sleppa honum og treysta á dreifikerfið í Kollafirði en það er einfasa loftlína svo það þyrfti þá sennilega að styrkja, sem auðvitað er gott. Reksturinn væri leiðinlegur, fara þyrfti í virkið þegar bilun yrði á einhverjum útgangi virkisins. Byggja þarf hús yfir rofabúnaðinn. Þannig að viðskiptamódelið snérist um 3-4 útganga tengivirki eða 15 km af línu/streng og bæta við einum rofareit í Geiradal.

Landsnet ákvað fyrir nokkrum árum að tryggja okkur Vestfirðingum rekstraröryggi með byggingu dieselrafstöðvar í Bolungarvík. Með henni er talið að komið sé á ásættanlegt rekstraröryggi. Nýútgefin kerfisáætlun gerir ekki ráð fyrir neinni annarri tengingu inn á Vestfirði næstu 10 árin. Taki ríkið ekki fram fyrir hendurnar á Landsneti og veiti sérstöku fjármagni í nýjar streng/línu lagnir inn á Vestfirði, er ekki útlit fyrir að viðskiptalegar forsendur séu fyrir margra milljarða framkvæmd við línulagnir næstu áratugina. Og réttið upp hönd sem trúið því að ríkið leggi milljarða í að tryggja Vestfirðingum rafmagn.

Ég vona að af Hvalárvirkjun verði, en að hún verði einhver vendipunktur í raforkuöryggi Vestfirðinga, held ég ekki.

Henry J.H. Bæringsson, Ísafirði.

DEILA